150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2019.

554. mál
[15:00]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti Mér þykir leitt að ég gerði mig ekki alveg skiljanlega hér áðan. Ég ætlaði að fara í andsvar við hv. þm. Smára McCarthy en nýti þá tækifærið til að fara aðeins yfir það sem bæði formaður og varaformaður Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES fóru yfir í ræðum sínum og þakka ég þeim mjög vel fyrir það. Til að byrja með vil ég lýsa því yfir hversu gleðilegt er að hv. þm. Smári McCarthy hafi verið formaður í þingmannanefnd EFTA og stýrt öllum fundum nefndarinnar. Ég held að það sé afskaplega gott þegar íslenskir þingmenn taka að sér formennsku í svona starfi. Það er líka áhugavert það sem er reifað hér í skýrslunni, og bæði formaður og varaformaður komu inn á, og kemur engum á óvart, hversu umfangsmikið Brexit hefur verið í umfjöllun þingmannanefnda EFTA og EES á síðastliðnu ári. Það verða þá gríðarlega mikil pólitísk tíðindi að Bretar gangi úr ESB til að reyna að ná svipuðum réttindum og fríverslunarsamningum og við hér njótum í gegnum EES-samninginn. Og kannski, eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom inn á, að Bretar séu jafnvel ekki einu sinni tilbúnir til að taka inn allt sem þar er kveðið á um.

Við höfum oft hér í þingsal Alþingis fjallað um fríverslunarsamninga enda gegna þeir veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar og eru ótrúlega mikilvægir fyrir okkur, enda er EFTA í fararbroddi á heimsvísu í gerð fríverslunarsamninga. Eins og kemur fram í skýrslunni eru 29 samningar í gildi og taka til 40 ríkja. Það er með ólíkindum að Mercosur-samningnum sé efnislega lokið og nú eigi bara eftir að fara í lagalega yfirferð og sá samningur bíði undirritunar. Það er gríðarlega stórt skref í fríverslunarsamningsgerð sem Ísland á aðild að.

Mér hefur hér í þingsal orðið tíðrætt um inngangsorðin í fríverslunarsamningum þar sem kveðið er á um virðingu fyrir mannréttindum og lýðræði. Ég sé hér í skýrslunni að EFTA hefur verið að vinna að því að undirbyggja nýja samninga en sömuleiðis að því að uppfæra eldri fríverslunarsamninga sem snýst einkum um að víkka út þá samninga sem takmörkuðust við vöruviðskipti þannig að þeir taki m.a. til hugverkaréttinda, úrlausnar deilumála og sjálfbærrar þróunar. Það væri kannski áhugavert að fá hv. formann hér til að reifa þetta nánar vegna þess að við höfum hér í þingsal Alþingis farið nokkuð ítarlega og oft yfir þessi inngangsorð. Það hefur verið vilji margra þingmanna hér að kveða fastar að orði í inngangsorðunum þegar kemur að því að virða mannréttindi og lýðræði í þeim löndum sem við erum að gera fríverslunarsamninga við, og ber þar hæst samninga sem hafa verið í bígerð og hafa síðan verið staðfestir af þinginu við Filippseyjar en sömuleiðis líka samningar við Georgíu. Ég myndi gjarnan vilja heyra í hv. þm. Smára McCarthy um það hvar sú vinna er stödd þegar kemur að því að kveða nánar á um þessa hluti í inngangsorðunum og sömuleiðis þegar kemur að sjálfbærri þróun. Það væri áhugavert ef þingmaðurinn sæi sér fært að koma hingað upp í smáræðu í viðbót til að reifa þetta örlítið.

Annars vil ég þakka þeim þingmönnum sem sæti eiga í þessari þingmannanefnd kærlega fyrir þeirra vinnu. Af lestri skýrslunnar má ráða að þarna eru tekin upp af hálfu íslenskra þingmanna góð áherslumál. Ég hvet þau áfram til dáða í sínu alþjóðlega starfi. En eins og ég segi þá væri áhugavert að heyra meira um það sem ég minntist á í ræðu minni.