150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

orkufrekur iðnaður og lagning sæstrengs.

[15:23]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni orð hæstv. iðnaðarráðherra. Ég svaraði hv. þingmanni um þau og benti honum á að það sem hún sagði í þessum sjónvarpsþætti, eftir því sem mér er best kunnugt, er ekki hægt að túlka sem neina stefnubreytingu af hálfu ríkisstjórnar. Þessi ríkisstjórn hefur ólíkt ríkisstjórninni sem sat 2013–2016 ekki tekið þá ákvörðun að kanna möguleika á sæstreng þó að hæstv. iðnaðarráðherra hafi sagt í þessum þætti að hún útilokaði ekki neitt slíkt til framtíðar. Það var spurningin. Hv. þingmaður spurði um orð ráðherra. Ég fór yfir það hvað hún hefði sagt. Síðan sagði ég það algjörlega skýrt: Ríkisstjórnin sem nú situr hefur ólíkt fyrri ríkisstjórnum ekki tekið neina ákvörðun um að fara í slíka könnun og það sem meira er, ríkisstjórnin sem nú situr ákvað að leggja til þá breytingu að ef einhvern tíma verður af slíkri könnun í framtíðinni er það Alþingis að fallast á slíka ákvörðun þannig að við hertum rammann. Það er sú stefnubreyting sem við tókum og við hana stöndum við. Það hefur engin breyting orðið á því.