150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

fangelsismál.

[15:43]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og biðst afsökunar á að hafa ekki verið nógu vel upplýst um að það séu fleiri en eitt opið fangelsi.

Í skýrslu starfshóps sem hæstv. félags- og barnamálaráðherra skipaði um bættar félagslegar aðstæður einstaklinga sem lokið hafa afplánun refsingar í fangelsi, í þeirri nálgun, er talað um að það þurfi að leggja meiri áherslu á bataferli en refsivist. Þegar einstaklingur situr af sér dóm er mikilvægt að afplánun hans sé hluti af bataferli og að einstaklingur gangi í bataferli frá dómi þar til að hann skilar sér út í samfélagið. Það er augljóst að opið fangelsi er hluti af heilbrigðara ferli fyrir þá sem ganga í gegnum slíkt. Á Kvíabryggju eru vistmenn bæði karlar og konur og því finnst mér að það eigi að lyfta undir þetta og auka tækifæri — það er kannski ekki hægt að tala um fangelsi sem tækifæri — en að fjölga slíkum rýmum og byggja undir þau og sérstaklega að það séu sérstök rými fyrir konur.