150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

fordæming meðferðar bandarískra stjórnvalda á flóttabörnum.

109. mál
[16:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram í máli þingmannsins er ég einn af flutningsmönnum málsins þannig að ég tek heils hugar undir það og þakka fyrir að það sé fram komið. Mig langar að fylgja aðeins eftir lokaorðum hv. þingmanns um að við lítum okkur nær því að ég held að það sé mjög mikilvægt í þessu samhengi. Ég held að við þurfum líka að líta aðeins víðar yfir sviðið. Hér erum við að fjalla um þingsályktunartillögu sem snýst sérstaklega um það hvernig bandarísk stjórnvöld koma fram við börn á flótta. Íslensk stjórnvöld mega skoða sinn gang þegar kemur að framkomu við fólk á öllum aldri á flótta. Evrópsk yfirvöld mega það líka almennt. Á meðan Bandaríkin skilja fjölskyldur í sundur hefur Evrópusambandið valið þá leið að girða Miðjarðarhafið af þannig að þar komist enginn yfir nema fuglinn fljúgandi og styður síðan uppsetningu og útvistun á flóttamannavandanum með búðum í Líbíu þar sem fólk býr við mjög slæmar aðstæður.

Íslendingar stunda það að senda fólk eins hratt og örugglega úr landi og hægt er þannig að hér setjist sem fæstir að og það hefur verið kjarninn í flóttamannastefnu Íslands mjög lengi. Svo mættum við líka líta á frændur okkar Dani sem hafa ekki útvistað eins og Evrópusambandið í heild sinni til Líbíu, Danir hafa sett upp sínar eigin flóttamannabúðir þar sem fólki sem ekki er hægt að framkvæma endursendingu á, fólki sem hefur fengið synjun í danska verndarkerfinu, er haldið einhvern veginn í limbói milli dóms og laga jafnvel árum saman við slæmar aðstæður. Þetta hefur meira að segja gengið svo langt (Forseti hringir.) að fólk er farið að tala fyrir því í Danmörku að Danmörk hætti að taka þátt í mannréttindasáttmála Evrópu, segi sig frá Mannréttindadómstólnum vegna þess að þar á bæ finna menn að þessari illu meðferð á fólki á flótta.