150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

opinber fjármál.

145. mál
[16:23]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Þetta er lítil og létt breyting sem ég mæli fyrir en samt stórvægileg. Þetta frumvarp um breytingu á lögum um opinber fjármál hljóðar svo:

„1. gr. Í stað orðanna „1. apríl“ í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: 1. febrúar.“

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Frumvarpið hefur verið lagt áður fram en ekki náð fram að ganga. Gildandi lög um opinber fjármál gera ráð fyrir því að fjármálaáætlun sé lögð fram eigi síðar en 1. apríl ár hvert. Fjármálaáætlun er hins vegar mjög viðamikil þingsályktunartillaga þar sem farið er yfir stefnu stjórnvalda fyrir næstu fjárlög sem og næstu fimm ára. Ef afgreiðsla þingsins á að vera vel ígrunduð er nauðsynlegt að nægur tími sé gefinn til þinglegrar meðferðar tillögunnar, bæði hvað varðar umræður í þingsal og aðkomu fastanefnda en einnig fyrir umsagnaraðila. Þar sem fjárlög skulu vera fyrsta mál hvers haustþings væri ekki óeðlilegt að fyrsta mál vorþings væri fjármálaáætlun. 1. febrúar er kannski ákveðinn málamyndargjörningur hvað það varðar, örstutt eftir áramót og hléið á þingstörfum sem þá er. En ég held að þegar við setjum þetta í réttan gír og þetta er orðið mun skipulagðara þá ætti fjármálaáætlun að geta verið fyrsta mál hvers vorþings. Við leggjum samt til að miðað sé við 1. febrúar til að byrja með. Ég hefði ekkert á móti því að þetta væri kannski 1. mars, ef fyrstu skref væru stigin frá því að hafa það 1. apríl, það yrði 1. mars næst og svo 1. febrúar og þá mögulega að lokum fyrsta mál hvers vorþings.

Umræður um fjármálaáætlunina eins og uppsetning á lögum um opinber fjármál var áttu að vera til þess að draga fjárlagaumræðuna dálítið skýrar fram, ná fram grundvelli hennar, forsendum, setja allt í skýrara samhengi og minnka í raun umfang fjárlagafrumvarpsins á haustþinginu, sem hefur tekist að þó nokkru leyti, kannski minna í nefndarstarfinu. Þá mætti taka annan gír í nefndarstarfinu í kringum fjárlögin. Til að það geti gengið eftir þarf umræðan um fjármálaáætlunina að hafa verið ígrundaðri sem slík. Eins og tímasetningin er núna, 1. apríl, er hún að detta inn í þingið yfirleitt rétt í kringum páskafríið, sem er umsagnartíminn, og þá er örstuttur tími í rauninni, u.þ.b. mánuður eða eitthvað svoleiðis, sem þingið hefur til þess að klára fjármálaáætlunina. Að sjálfsögðu, eins og ég segi, er það eitt stærsta mál hverrar ríkisstjórnar á hverju ári að setja fram stefnu sína, kostnaðarmeta hana og forgangsraða. Fjármálaáætlunin hlýtur að kalla á eina viðamestu umfjöllun þingsins þegar allt kemur til alls. Þarna erum við að tala um fjárveitingarnar og grundvöll að fjárveitingum sem Alþingi hefur fjárheimild til að veita. Það tengist beint inn í stjórnarskrána. Það að byrja fyrr á vorþingi að fjalla um fjármálaáætlun er algjörlega nauðsynlegt og ég held að lokatakmarkið ætti að vera 1. febrúar, ef ekki einmitt fyrsta mál hvers vorþings.