150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

opinber fjármál.

145. mál
[16:29]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Praktískt mögulegt í stofnununum — þetta tengist einna helst, miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið, þeim tíma sem fer í að loka síðasta fjárlagaári. Satt best að segja er einfaldlega verið að loka síðasta fjárlagaári allt of seint. Það er ekkert flóknara en það. Já, það þyrfti að taka ákveðið átak, sem er hægt að gera, til að ná þeirri dagsetningu framar á árið og þá væri kannski eðlilegt að byrja á því að setja 1. mars til þess að gefa stofnununum andrými til að klára og gíra þessa dagsetningu svo niður í 1. febrúar. Það ætti vel að vera hægt að loka árinu miðað við hvernig lög um opinber fjármál voru sett upp, það á að huga að greiðslugrunninum, hvenær verið er að borga reikninga o.s.frv. Það á að vera miklu meira flæði á milli ára í lögum um opinber fjármál en var áður. Þá kemur þetta út í plús og mínus eftir því sem við á, þá er verið að færa fjárheimildir á milli ára en ekki fella niður eða fjármagna aftur í tímann. Ég held að praktískt séð sé mjög gerlegt að ná þessari dagsetningu framar, taka á ástæðunni fyrir því að þetta kemur svona seint núna. Ég held að það sé algerlega nauðsynlegt fyrir þingið að vinna á þessum praktíska ómöguleika sem er í augnablikinu sá að fyrra fjárlagaári sé ekki lokað fyrr en svona seint. Það sé algerlega nauðsynlegt fyrir einmitt það fjárveitingavald sem þingið á að hafa að fá miklu fyrr upplýsingar um það hvernig síðasta ár kláraðist og, eins og ég legg til í frumvarpinu, á innan við einum mánuði.