150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

opinber fjármál.

145. mál
[16:43]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Framsetningin já. (Gripið fram í.) Hún er ekkert rosalega góð eins og er, en ekki af því að lög um opinber fjármál séu vandamálið þar. Það er nefnilega ekki farið eftir lögum um opinber fjármál í framsetningunni. Það vantar kostnaðarmat, ábatagreiningu vantar og forgangsröðunarlistann. Þegar það er komið þá kemur allt hitt. Ef grunnhugsunin í vinnunni um fjárlög og fjármálaáætlun er að vinna út frá þessum skilyrðum, þá summast hitt allt tiltölulega auðveldlega upp. En verið er að byrja á röngum enda í núverandi fjárlagaferli, það er í raun verið að vinna samkvæmt gömlu lögunum um fjárreiður ríkisins frekar en lögum um opinber fjármál. Það að stýra þessu aðeins, setja í annan gír varðandi dagsetninguna, gefur fólki minna svigrúm til þess að vinna hlutina bara eins og venjulega. Það verður að hugsa um þau grundvallaratriði sem birtast í lögum um opinber fjármál og verður að sinna þeim. Þegar það er gert þá gengur hitt allt tiltölulega smurt, myndi ég áætla. Gagnauppsetning sem slík og allt hitt er afleiðing af þeim aðalatriðum sem ég taldi upp áðan, kostnaðargreiningu, forgangsröðun og þess háttar. Mesta vinnan fer í það, alveg tvímælalaust. Ef byrjað er á einhverju öðru sem er rosalega tímafrekt þá gefst ekki tími til að gera það sem skiptir máli. Ég held að það að byrja á dagsetningunni sé alls ekki slæmt sem fyrsta skref, en sitt sýnist hverjum og við fáum umsagnir um þetta og þá koma kannski fram aðrar upplýsingar.