150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

innheimtulög.

158. mál
[16:45]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á innheimtulögum, nr. 95/2008, með síðari breytingum, nánar tiltekið um leyfisskyldu. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson.

Frumvarpið sem hér er til umræðu myndar þátt í heild sem stendur saman af öðrum frumvörpum sem ég hef ásamt meðflutningsmönnum mínum flutt til að styrkja stöðu fjölskyldna og heimila á lánamarkaði. Sú staða hefur verið bágborin og þess vegna hef ég flutt hér lyklafrumvarp, frumvarp um það sem ég kalla tangarsókn að verðtryggingunni úr öllum höfuðáttum, auk fjölmargra fyrirspurna um meðferðina á heimilum landsmanna í hruninu og eftirleik þess.

Herra forseti. Frumvarp þetta var áður lagt fram á 149. löggjafarþingi, síðasta þingi, 769. mál, en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt óbreytt. Frumvarpið á rætur að rekja til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 8302/2014 vegna kvörtunar Hagsmunasamtaka heimilanna yfir skorti á eftirliti með innheimtustarfsemi. Við meðferð málsins kom í ljós að nokkur fyrirtæki sem stunduðu innheimtustarfsemi störfuðu án eftirlits þar sem óljóst var hvort þau féllu undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins eða Lögmannafélags Íslands með þeirri afleiðingu að hvorugt þeirra hafði í raun eftirlit með þeim.

Með lögum nr. 55/2018 voru breytingar gerðar á innheimtulögum sem ætlað var að bregðast við niðurstöðum umboðsmanns Alþingis í fyrrnefndu máli. Síðan hafa komið fram ábendingar um að breytingarnar hafi ekki reynst eins vel og vonast var til. Svo virðist sem enn starfi innheimtufyrirtæki án eftirlits eða óljóst er hvernig eftirliti er háttað og breytingin hafi því ekki tekið af öll tvímæli um það. Við samningu frumvarps þessa hefur verið tekið mið af slíkum ábendingum.

Í innheimtulögum er innheimtuaðilum skipt í tvo hópa, annars vegar þá sem eru að meginreglu leyfisskyldir og falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins og hins vegar tiltekna aðila sem eru undanþegnir leyfisskyldu. Undantekningarákvæðið á m.a. við um opinbera aðila, fjármálafyrirtæki, lögmenn og lögmannsstofur. Þetta fyrirkomulag er í sjálfu sér ekki óeðlilegt í ljósi þess að fjármálafyrirtæki eru, svo dæmi sé tekið, þegar undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins en Lögmannafélag Íslands fer með eftirlit með störfum lögmanna. Ætla má að sérstaða lögmanna samkvæmt innheimtulögum stafi af því að innheimta á kröfum skjólstæðinga er oft liður í lögmannsstörfum sem má skilgreina sem aukastarf með aðalstarfseminni, þ.e. lögmannsþjónustu. Sambærilega undanþágu er t.d. að finna í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þegar um tilfallandi þjónustu er að ræða og hún veitt sem eðlilegur þáttur í víðtækara viðfangsefni á starfssviðinu.

Eftir sem áður hefur verið bent á að það sé óeðlilegt og geti skapað óvissu og glufur í eftirliti ef fyrirtæki sem hafa innheimtu að meginstarfsemi sinni geta sniðgengið starfsleyfisskyldu með því einu að skráðir eigendur þeirra séu lögmenn. Jafnframt er það til þess fallið að raska samkeppnisstöðu innheimtuaðila með starfsleyfi sem uppfylla öll skilyrði að önnur fyrirtæki á sama markaði geti komið sér hjá leyfisskyldu. Með frumvarpi þessu er því lagt til að skýrari aðgreining verði gerð á milli fyrirtækja með lögmannsþjónustu sem aðalstarfsemi og fyrirtækja sem hafa innheimtu fyrir aðra sem aðalstarfsemi og tekin verði af öll tvímæli um starfsleyfisskyldu hinna síðarnefndu án tillits til eignarhalds. Með hliðsjón af ábendingum í umsögnum Hagsmunasamtaka heimilanna er einnig lagt til að skerpt verði á upplýsingaskyldu innheimtuaðila um réttarúrræði neytenda og áréttað að Neytendastofa fari með eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum gagnvart neytendum.

Herra forseti. Um þetta mál liggur fyrir umsögn frá Hagsmunasamtökum heimilanna, dagsett 17. desember 2019. Þar er gerð grein fyrir því hvernig þetta frumvarp er nauðsynlegur liður í að gera Fjármálaeftirlitinu kleift að koma böndum á innheimtu ólöglegs kostnaðar af smálánum.

Einnig má benda á að þetta snýst ekki aðeins um eftirlit í þágu neytendaverndar heldur er líka til þess fallið að rétta þá ójöfnu samkeppnisstöðu sem innheimtufyrirtæki búa við eftir því hvort þau séu leyfisskyld eða ekki. Segir í umsögninni að með frumvarpinu sé stefnt að því að fella öll innheimtufyrirtæki undir sömu lagareglur er varða leyfisskyldu og eftirlit, óháð persónulegri stöðu endanlegra eigenda þeirra. Þannig er ætlunin að tryggja betur jafnræði og efla réttaröryggi neytenda á fjármálamarkaði.

Um þessar mundir hefur frumvarp um breytingu á lögum um neytendalán vegna svokallaðra smálána verið til meðferðar á vettvangi Alþingis. Af því tilefni vekja samtökin í umsögn sinni athygli á því að frumvarp það sem hér er til umræðu er mikilvægur liður í því að stemma stigu við innheimtu lána með ólögmætan kostnað, með því að fella öll íslensk innheimtufyrirtæki undir leyfisskyldu og valdsvið Fjármálaeftirlitsins.

Fram kemur í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar á þskj. 718 í 223. máli á 150. löggjafarþingi að vinna sé í gangi í dómsmálaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti við að skýra betur reglur um starfsemi löginnheimtuaðila og eftirlit með starfseminni. Meiri hlutinn hvetur til að þeirri vinnu verði hraðað eins og kostur er og frumvarp verði lagt fram á vorþingi.

Af þessu tilefni benda Hagsmunasamtök heimilanna á í umsögn sinni að þau helstu atriði sem samtökin telja þurfa að skerpa á í innheimtulögum koma nú þegar fram í því frumvarpi sem hér um ræðir.

Herra forseti. Ég vil vekja athygli þingheims á tveimur fyrirspurnum sem ég hef nýlega lagt fram og tengjast efni frumvarpsins. Fyrri fyrirspurnin lýtur að því eftirliti sem svokölluð smálánafyrirtæki búa við af hendi Neytendastofu. Fyrirspurnin er til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um stjórnvaldssektir á smálánafyrirtæki. Þar er spurt hvort af hálfu Neytendastofu hafi verið lagðar stjórnvaldssektir á svokölluð smálánafyrirtæki. Mjög mikilvægt er að þetta sé upplýst.

Í annan stað er spurt: Ef svo er, hvaða fyrirtæki eiga í hlut og í hverju felast þau brot sem sektað er fyrir? Hverjar eru fjárhæðir umræddra stjórnvaldssekta og hvenær voru þær lagðar á? Hafa umræddar stjórnvaldssektir verið greiddar? Ef svo er ekki, til hvaða aðgerða hefur verið gripið til að tryggja innheimtu þeirra?

Þá vil ég, herra forseti, geta samhengisins vegna um fyrirspurn til dómsmálaráðherra um vinnslu og miðlun upplýsinga um umdeildar skuldir sem ég mun víkja nánar að á eftir.

Baksvið fyrirspurnarinnar felst í að Persónuvernd gaf 26. febrúar 2018 út starfsleyfi til tiltekins fyrirtækis til vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga. Leyfið gildir til 1. maí 2020.

Herra forseti. Í starfsleyfinu segir, og þetta er aðgengilegt á alnetinu: Óheimil er vinnsla upplýsinga um umdeildar skuldir. Það á við ef skuldari hefur sannanlega komið andmælum við skuld á framfæri við kröfuhafa, greint honum frá ástæðu andmælanna og skuldin hefur ekki verið staðfest með aðfararhæfum dómi eða aðfararhæfri ákvörðun sýslumanns sem kunngjörð hefur verið í opinberri auglýsingu. Fallist sýslumaður, að tekinni slíkri ákvörðun, á andmæli skuldara þannig að fullnustugerð nái ekki fram að ganga telst skuldin aftur vera umdeild.

Spurningar mínar vegna þessa, sem liggja hér fyrir í fyrirspurninni til hæstv. dómsmálaráðherra, eru m.a. þessar:

Hvernig er háttað eftirliti með því að fjárhagsupplýsingastofa, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 246/2001, vinni ekki eða miðli upplýsingum um umdeildar skuldir?

Þá er spurt:

Hversu lengi má miðla fjárhagsupplýsingum sem hafa neikvæð áhrif á stöðu einstaklinga og hvernig er tryggt að þeim sé ekki miðlað eftir þann tíma?

Þá er hæstv. ráðherra spurður:

Hvaða viðurlög eru við því að vikið sé frá reglum í starfsleyfi um þessi atriði?

Enn er spurt:

Eru þess dæmi að vikið hafi verið frá slíkum reglum og ef svo er, hversu mörg eru þau tilvik og hvernig hefur verið brugðist við þeim?

Loks er hæstv. dómsmálaráðherra inntur eftir því hvort ráðherra telji ástæðu til að skerpa á reglum í þessu efni og eftir atvikum herða á viðurlögum ef frá þeim er vikið.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að geta hér um tillögu til þingsályktunar sem lögð verður fram á Alþingi á næstunni og tengist efni þess frumvarps sem við erum að ræða.

Alkunna er að fjallað er í fjármálakerfinu um viðkvæmar upplýsingar um fjárhagsmálefni einstaklinga, ekki síst þegar kemur að lántökum, t.d. til húsnæðiskaupa. Sama á við þegar kemur að leigu á íbúðum. Þar liggur meðal annars til grundvallar svokölluð vanskilaskrá sem unnin er í fyrirtæki sem á íslensku stofnanamáli heitir fjárhagsupplýsingastofa. Eitt slíkt fyrirtæki starfar á þessum vettvangi eftir því sem næst verður komist.

Sú staða má ekki vera uppi, herra forseti, að lánveitendur, hugsanlega misjafnlega vandir að virðingu sinni, séu í aðstöðu til að hafa áhrif á að einstaklingar rati á slíka vanskilaskrá, hugsanlega á vafasömum forsendum. Slíkt er mikið alvörumál og getur haft alvarlegar, að ekki sé sagt afdrifaríkar afleiðingar fyrir fólk að nafn þess birtist á slíkri skrá. Notkun greiðslukorta, leiga á íbúð, lántaka til kaupa á húsnæði, allt þetta verður býsna torvelt þeim sem eiga nafn sitt á umræddri vanskilaskrá. Allt þetta leiðir af sér að regluverk í þessu sambandi verður að vera sem vandaðast að allri gerð svo útilokað sé að fólki sé hrint fyrir björg í fjárhagslegu tilliti með því að koma nafni þess á slíka skrá.

Á næstunni mun ég leggja fram tillögu til þingsályktunar um endurskoðun regluverks um starfrækslu fjárhagsupplýsingastofa, eins og þessi fyrirtæki eru nefnd. Vil ég í sem stystu máli gera grein fyrir þeirri þingsályktunartillögu sem væntanleg er vegna tengsla hennar við það mál sem við ræðum hér.

Með leyfi forseta, er texti tillögunnar svofelldur:

Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa starfshóp sem taki til endurskoðunar lög og reglur sem gilda um starfrækslu fjárhagsupplýsingastofa og vinnslu upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögaðila í því skyni að miðla þeim til annarra. Starfshópurinn leggi sérstaka áherslu á réttarstöðu neytenda á fjármálamarkaði hvað varðar vinnslu slíkra upplýsinga og geri tillögur um úrbætur til að bæta stöðu neytenda á þessu sviði.

Síðan er fjallað um með hvaða hætti hópurinn verði skipaður og lögð áhersla á að Hagsmunasamtök heimilanna og Neytendasamtökin tilnefni hvor sinn fulltrúa. Síðan verði samráð við helstu stofnanir sem málið varðar, þar á meðal Persónuvernd, Neytendastofu, Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið og önnur félagasamtök og stofnanir sem málefnið kann að snerta. Ég tek það fram, herra forseti, að þegar ég nefni Fjármálaeftirlitið er ég að sjálfsögðu að vísa til þess hluta Seðlabankans sem núna heldur utan um það sem áður var og hét sjálfstætt fjármálaeftirlit, bara til að taka það fram.

Í greinargerð með þessari væntanlegu þingsályktunartillögu segir, herra forseti, að starfræksla fjárhagsupplýsingastofu feli m.a. í sér söfnun og skráningu upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögaðila í því skyni að miðla til annarra. Hér á landi starfar aðeins eitt fyrirtæki sem stundar slíka starfsemi. Starfsemin felur aðallega í sér að halda utan um skráningar á vanefndum fjárhagslegra skuldbindinga, svokölluð vanskilaskrá, og helstu skuldbindingar við fjármálafyrirtæki, svokallað skuldastöðuyfirlit. Með tilkomu laga um neytendalán, nr. 33/2013, og laga um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, hefur gerð lánshæfismats haft æ meiri þýðingu sem skilyrði fyrir lánveitingum, en slíkt mat er að miklu leyti byggt á upplýsingum úr vanskilaskrá og skuldastöðuyfirliti og felur þannig í sér sjálfvirka vinnslu persónuupplýsinga, þ.e. gerð persónusniðs.

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að vísa áfram í greinargerð með þeirri þingsályktunartillögu sem ég hef kynnt hér í sem allra stystu máli en þar segir, með leyfi forseta: Við setningu nýrra laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, var lögfest ákvæði sambærilegt því sem var í þágildandi lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, en nýmæli var að vísa sérstaklega til vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram við gerð lánshæfismats og taka fram að sú vinnsla þyrfti að byggjast á leyfi Persónuverndar. Ítarlega útfærslu á reglum um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust er að finna í reglugerð um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, nr. 246/2001. Samkvæmt reglugerðinni er starfsemin leyfisskyld og getur Persónuvernd bundið slíkt starfsleyfi þeim skilmálum sem hún telur vera nauðsynlega hverju sinni. Með setningu nýrra persónuverndarlaga var reglugerðin þó ekki tekin til sérstakrar endurskoðunar. Nauðsyn þess að endurskoða og skýra reglur um starfrækslu fjárhagsupplýsingastofa hefur komið glögglega fram í kjölfar fjármálahrunsins 2008 í tengslum við álitaefni sem hafa vaknað um lögmæti krafna með hliðsjón af reglum á sviði neytendaverndar. Ekki síst í tengslum við svokölluð smálán með ólöglega háum lánskostnaði sem hafa verið, og mun óhætt að fullyrða það, herra forseti, innheimt af hörku, m.a. með því að nota vanskilaskráningu sem hótun og ógn gagnvart neytendum.

Með þingsályktunartillögu þessari verður því lagt til að dómsmálaráðherra verði falið að skipa starfshóp sem taki til endurskoðunar lög og reglur sem gilda um starfrækslu fjárhagsupplýsingastofa og vinnslu upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögaðila í því skyni að miðla þeim til annarra, með sérstaka áherslu á réttindi neytenda. Flutningsmenn leggja áherslu á mikilvægi þess að neytendaverndarsamtök hafi aðkomu að slíkri vinnu til að tryggja hagsmuni neytenda og þeim verði því falið að tilnefna fulltrúa í hópinn. Enn fremur er lagt til að starfshópurinn hafi samráð um tillögur og nánari útfærslur þeirra við félagasamtök og stofnanir sem málefnið snertir, svo sem samtök launafólks, fjármálafyrirtækja og eftirlitsstofnanir.

Herra forseti. Nú hef ég lokið við að gera grein í sem allra stystu máli fyrir þeirri þingsályktunartillögu sem hingað er væntanleg og verður lögð fram á næstunni um endurskoðun regluverks um starfrækslu fjárhagsupplýsingastofu.

Herra forseti. Heimilin máttu þola harða framgöngu hinna svokölluðu fjármálaafla í hruninu og ekki síður í eftirleik þess. Varnir í þágu heimila og fjölskyldna voru engar reistar og virtust stjórnvöld, einkanlega í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem af sérkennilegri kaldhæðni kenndi sig við norræna velferð, frekar hafa lagst á sveif með fjármálafyrirtækjum og innheimtumönnum en fjölskyldum í hinni hörðu glímu sem margar þeirra máttu heyja í baráttu við að bjarga heimilum sínum, húsnæði fjölskyldunnar, foreldranna og barnanna. Við ofurefli var að etja fyrir fjölskyldurnar, ekki síst þegar þær stóðu frammi fyrir samanlögðu afli fjármálakerfisins og stjórnvalda sem tryggðu þeim allt afl réttarkerfisins að baki kröfum sem í mörgum tilfellum var haldið uppi af harðfylgi, að ekki sé sagt óbilgirni og rangsleitni.

Herra forseti. Þetta frumvarp, og þau önnur mál sem ég hef gert hér að umtalsefni, fela í sér umbætur í þágu fjölskyldna og heimila með það að markmiði að auka öryggi þeirra í fjárhagslegu tilliti. Ég leyfi mér að vænta vandaðrar meðferðar í hv. þingnefnd og góðra undirtekta hv. þingmanna við þær umbætur sem hér er leitast við að koma á.