150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

innheimtulög.

158. mál
[17:09]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á innheimtulögum, þ.e. um leyfisskyldu innheimtufyrirtækja eða þeirra sem stunda innheimtu. Flutningsmaður, hv. þm. Ólafur Ísleifsson, hefur farið ítarlega yfir frumvarpið en ég er meðflutningsmaður á því með honum og ætla að nefna nokkur atriði. Frumvarpið er til komið vegna álits umboðsmanns Alþingis þar sem hann benti á brotalamir í innheimtulögum og ekki síður vegna hvatningar Hagsmunasamtaka heimilanna sem hvöttu til þess að gerðar yrðu lagfæringar á lögunum. Frumvarpið er hér komið og lagt fram með þann tilgang að gera þessar tilteknu lagfæringar.

Hv. þm. Ólafur Ísleifsson nefndi það í ræðu sinni að þetta væri liður í vegferð sem hann hefur lagt í sem hann nefnir tangarsókn gegn verðtryggingunni. Ég er flutningsmaður með honum á mörgum frumvörpum í þessa veru þar sem leitast er við að ná tökum á því umhverfi sem fólkið í landinu hefur þurft að búa við mörg undanfarin ár og sérstaklega fyrir hrun og í hruninu sem kom hart niður á heimilunum í landinu og varð til þess að 10.000 heimili voru boðin upp ofan af fólki. Þetta frumvarp er einn liður í því að leitast við að rétta hlut skuldara, íbúa og fjölskyldna í landinu. Þetta er liður í því og ég styð það auðvitað heils hugar.

Innheimtulögin eru þannig að aðilar sem hafa heimild eða leyfi til að innheimta kröfur þurfa að sækja um svokallað innheimtuleyfi þar sem Fjármálaeftirlitið fer með eftirlit og síðan þeir aðilar sem eru undanþegnir þessari leyfisskyldu, þ.e. fjármálafyrirtæki og lögmannsstofur. Er það í hæsta máta eðlilegt vegna þess að lögmenn þurfa oft í starfsemi sinni að innheimta kröfur sem er þá hluti af þjónustu þeirra. Fjármálaeftirlitið hefur annars vegar eftirlit með fjármálafyrirtækjunum og hins vegar hefur Lögmannafélag Íslands eftirlit með lögmannsstofunum og starfsemi þeirra en þarna á milli falla ákveðnir aðilar sem þessu frumvarpi er ætlað að ná yfir, þ.e. aðilar eða fyrirtæki sem hafa innheimtu sem aðalstarfsemi en ekki lögmannsþjónustu. Einungis er áskilið í núverandi lagaumhverfi að skráður eigandi sé lögmaður. Þessu frumvarpi er einmitt ætlað að girða fyrir eftirlitsleysi slíkra fyrirtækja. Það verður ekki nægjanlegt, ef þetta frumvarp verður að lögum, að skráðir eigendur þess lags fyrirtækja, sem hafa innheimtustarfsemi að aðalstarfsemi, séu einungis lögmenn heldur verða slík fyrirtæki leyfisskyld og þar af leiðandi sett undir eftirlit, svo að ég útskýri örlítið hvað við erum að fara með framlagningu frumvarpsins.

Það breytir því ekki, herra forseti, að lögmenn og lögmannsstofur mega eftir sem áður stunda innheimtustarfsemi án starfsleyfis og þá undir eftirliti Lögmannafélags Íslands, enda sé sú innheimta liður í störfum þeirra sem lögmanna að sjálfsögðu.

Frumvarpið snýst líka um samkeppni. Það snýst um að samkeppnisstaða þeirra sem stunda þessa starfsemi og eru eftirlitsskyldir, eins og langflestir eru, eins og ég hef útskýrt, sé ekki skert með þeim hætti að það séu einhverjir aðrir aðilar sem sleppi við slíkt eftirlit. Verið er að setja undir þann leka með þessu frumvarpi að til staðar séu fyrirtæki í samfélaginu sem lúta hvorki eftirliti Fjármálaeftirlitsins né Lögmannafélagsins — en sú er raunin, herra forseti — og koma lögum yfir þessi fyrirtæki og gera þau eftirlitsskyld.

Að svo búnu vona ég að frumvarpið fari til nefndar og hljóti þar faglega umfjöllun og komi svo inn í þingið og verði að lögum á þessu þingi. Þetta er mikilvægt mál. Þetta er sanngirnismál. Þetta er sanngirnismál fyrir heimilin í landinu og þetta er sanngirnismál fyrir fólkið í landinu.