150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

skipulagt hjartaeftirlit ungs fólks.

164. mál
[17:16]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (U):

Virðulegi forseti. Heimur versnandi fer, er oft haft á orði, en það er bara aldeilis ekki svo. Við eigum mýmörg dæmi um gríðarlegar framfarir í samfélaginu á síðustu áratugum. Eitt af þeim dæmum er hvernig tekist hefur að berjast við hjartasjúkdóma um allan heim. Síðustu áratugi hefur dregið gríðarlega úr tíðni dauðsfalla af völdum hjartasjúkdóma. Þar spilar margt inn í, ekki síst auknar áherslur á lífsstílsbreytingar, almennar forvarnir og fræðsla um viðbragð við hjartaáfalli. Það hittist svo vel á að þennan mánuðinn er í gangi svokallað GoRed-átak um allan heim og þar er Ísland ekki undanskilið. Það átak miðar að því að fræða konur sérstaklega um áhættuþætti og einkenni hjarta- og æðasjúkdóma og hvernig draga megi úr líkum á sjúkdómnum vegna þess að þrátt fyrir allar þær góðu fyrirætlanir sem hafa verið varðandi forvarnir á fyrri árum þá láðist á köflum að taka með í myndina að þetta er sjúkdómur sem lýsir sér með ólíkum hætti hjá kynjunum. Konum var hreinlega ekki kennt að þekkja einkenni sjúkdómsins á eigin skinni. Úr þessu er verið að bæta með GoRed-átakinu og ýmsu öðru, en gott er að minnast á það hér. Sama hvað við beitum miklum forvörnum er alltaf einhver hópur, einhver hluti hjartasjúkdóma, sem kallar á sértækari og fyrirbyggjandi forvarnir, sérstaklega þegar um er að ræða arfgenga sjúkdóma sem ekki er hægt að koma með öllu í veg fyrir.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir er lögð fram með það að leiðarljósi að ná til þess hóps sem glímir við hluta arfgengu hjartasjúkdómanna þannig að hægt sé að grípa inn í áður en til hjartaáfalls kemur og fækka þannig þeim einstaklingum sérstaklega sem fá hjartaáföll ungir. Það er auðvelt að reikna inn í þetta mikinn heilsufarslegan og efnahagslegan ávinning vegna þess að oft má fyrirbyggja hjartaáföll af völdum sjúkdóma sem greinast snemma hjá fólki á mjög einfaldan hátt með lífsstílsbreytingum eða bara með einfaldri lyfjameðferð sem getur haldið sjúkdómnum í skefjum allt lífið í gegn.

Hér ræðir ekki um sérstaklega stóran hóp. Tillagan felur í sér að heilbrigðisráðherra komi upp skipulögðu hjartaeftirliti þannig að ef fólk fær hjartaáfall ungt, segjum undir fimmtugu, og rétt að ráðuneytið útfæri þetta, verði nánustu ættingjar þeirra einstaklinga boðaðir í skoðun til að greina hvort þeir séu í áhættuhópi fyrir arfgenga hjartasjúkdóma. Með öðrum orðum, ef ungur einstaklingur greinist með hjartasjúkdóm með því að fá áfall verði í ákveðnum radíus út frá honum öllum boðið að fara í tékk. Fyrir þessu eru læknisfræðileg rök þar sem hjartaáföll hjá yngri einstaklingum má oftast rekja til arfgengra sjúkdóma þar sem arfgeng blóðfituhækkun er algengust. Slíka hækkun er mjög auðvelt að greina og meðhöndla. Þegar fólk fer að eldast breytast áhættuþættirnir þannig að eftirlit af þessu tagi myndi líklega ekki skila sama árangri í þeim aldurshópum. Eins og ég segi, ef þessi tillaga verður samþykkt fellur það í hlut heilbrigðisráðuneytisins, og væntanlega myndi það koma líka fram við umfjöllun velferðarnefndar, að meta hvaða viðmið eigi að hafa við útfærslu þessa, bæði hvaða aldur er miðað við og hvað flokkist undir nánustu ættingja. Þá þarf líka að huga að persónuverndarsjónarmiðum. Það þarf að tryggja að allt samþykki í þessu ferli sé vel upplýst og ætli við treystum ekki ráðuneytinu ágætlega til þess.

Raunar er það svo að nú þegar má gera ráð fyrir því að nokkur hluti þess fólks sem tillaga þessi myndi ná yfir leiti sér aðstoðar ef ættingi fær hjartaáfall. Tillögunni er ætlað að ná til þeirra sem ekki átta sig á þeim möguleika eða mikilvægi hjartaeftirlits. Reyndar mætti alveg velta fyrir sér hvort fleiri sjúkdómar mættu eiga hér undir eða fleiri áhættuhópar, t.d. eru ákveðnir hópar kvenna í sérstakri áhættu þegar kemur að kransæðasjúkdómum. Konum sem hafa fengið meðgöngueitrun, háþrýsting eða sykursýki á meðgöngu er sérstaklega hætt við að þróa með sér hjartasjúkdóm þegar frá líður. Það væri ágætt ef heilbrigðiskerfið héldi utan um þessa hópa og myndi einfaldlega bjóða þeim einhverja eftirfylgni, greina hjá fólki sjúkdóm á frumstigi þannig að ekki komi til þess að fólk fái óvænt og hættulegt hjartaáfall á unga aldri.

Ég legg til að tillagan gangi til velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.