150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

starfshópur um útgáfu öruggra opinberra skilríkja.

180. mál
[17:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er nefnt Auðkennið góða sem fór svo úr höndum ríkisins og er eitt af þessum klassísku dæmum um það að ríkið býr eitthvað til og gefur það síðan til einkaaðila, og nú er komin heimild í fjárlög til að ná því til baka. Það var víst ekki ágóði af því að reka þessa starfsemi í örmum einkaaðila, það er mjög skemmtilegt. En við höfum líka heyrt það í fjárlaganefnd að hvort sem þau kaup koma til með að ganga eða ekki, hvort sem þau nást eða ekki, verði samt stofnað til nýs auðkennis og þá í opinberri eigu. Það er margt innan hópsins, t.d. um stafræna stjórnsýslu, sem bendir til ákveðinna mjög jákvæðra hugarfarsbreytinga um það hvar eignarhaldið á því sem hið opinbera býr til fyrir skattfé skuli vera, sem sagt hjá hinu opinbera. Það yrði til þess að eignarhaldið yrði aldrei selt, eignarhaldið á svona hugbúnaði eins og seldur var til Auðkennis myndi aldrei fara úr höndum hins opinbera. Reksturinn á því yrði mögulega boðinn út eða eitthvað því um líkt en ríkið hefði alltaf eignarhald á hugbúnaðinum þannig að þegar samningur rynni út væri hægt að bjóða öðrum að sjá um reksturinn o.s.frv., án þess að þurfa að tapa þeim peningum.

Mig langar aðeins til að spyrja: Hvernig er þetta víðtækara en að fara bara aftur í upprunalega auðkennið sem ríkið sá um? Og hvernig virkar sú samnorræna hugsun sem er þarna á bak við? Ég átta mig ekki alveg á tæknilegum forsendum, verður þetta samnorrænt rótarlén og þá á vegum hverra? Þá er einmitt komin hugmynd um það hvar eignarhaldið sé.