150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til að vekja athygli þingheims á alvarleika þess ef svo hrapallega vildi til að loðnubrestur yrði hér annað árið í röð. Það liggur nú fyrir ný skýrsla sem Vestmannaeyjabær lét gera um afleiðingar þar í bæ og svipaða sögu má auðvitað heimfæra upp á Fjarðabyggð en þessi sveitarfélög eru með tæplega 60% af aflaheimildum í loðnu, 30% í Vestmannaeyjum og 27% eða svo í Fjarðabyggð. Hornafjörður á sömuleiðis mikið undir hér líka.

Ég vildi aðeins nefna tölur svo fólk áttaði sig á því hvað hér er á ferðinni samkvæmt þeirri skýrslu sem Vestmannaeyjabær lét gera. Uppsjávarfyrirtækin sjálf í Vestmannaeyjum urðu af 7,6 milljarða kr. tekjum. Önnur fyrirtæki í Eyjum í alls konar stoðrekstri urðu af rúmlega 900 milljónum. Vestmannaeyjabær sjálfur varð af rúmlega 160 milljónum í töpuðu útsvari og stéttarfélög og lífeyrissjóðir urðu af svipaðri upphæð, 160 milljónum. Tapaðar launatekjur voru í Vestmannaeyjum í fyrra út af loðnubresti um milljarður, hafði bein áhrif á samtals 350 starfsmenn. Þetta jafngildir um 60 ársverkum í Vestmannaeyjum. Ef við heimfærum þetta upp á Reykjavík þá samsvaraði þetta því að atvinnufyrirtækin í Reykjavík hefðu orðið af 228 milljarða kr. tekjum og 1.800 störf hefðu tapast.

Og hver er svo lexían af þessu öllu? Hún er væntanlega sú að halda áfram til þrautar að leita að loðnunni svo að við lendum ekki í því sama og í hittiðfyrra þar sem stefndi í 20.000 tonna veiði, en þegar fyrirtækin sjálf hófu frekari leit að loðnu var bætt við 250.000 tonnum í viðbót. Lexían er: Hættum ekki að leita fyrr en fullreynt er.