150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

stafræn endurgerð íslensks prentmáls vegna þingsályktunar nr. 20/148.

95. mál
[14:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér verður mælt fyrir skýrslu minni um stafræna endurgerð íslensks prentmáls með vísan til þingsályktunar nr. 20/148. Endurgerð íslensks prentmáls felur í sér að færa eldri prentverk á stafrænt form til að hægt sé að lesa verkin á nettengdum búnaði þannig að allir landsmenn geti nálgast efni þeirra. Tilgangur skýrslunnar er að gera grein fyrir kostnaðar- og tímaáætlun um stafræna endurgerð íslensks prentmáls. Skýrslan tengist átaki um að efla íslensku sem opinbert mál en Alþingi samþykkti í vor þingsályktun í 22 liðum um aðgerðir til að efla tungumálið á öllum sviðum samfélagsins. Ein stærsta aðgerðin í þeirri áætlun snýr að framtíð íslenskunnar í stafrænum heimi og fyrir skemmstu var undirritaður samningur um fyrsta áfanga þess verkefnis, samningur um smíði innviða fyrir máltækni.

Virðulegur forseti. Meginefni skýrslunnar er byggt á niðurstöðum starfshóps sem skipaður var til að gera áætlun um stafræna endurgerð íslensks prentmáls. Niðurstöðum hans má flokka niður í fimm þætti: Í fyrsta lagi að afmarka ætti verkefnið við útgefnar bækur á íslensku, bæði frumsamdar og þýddar. Fjöldi útgefinna bóka á íslensku á árabilinu 1850–2015 er tæplega 90.000.

Í öðru lagi að miða skuli við að hin stafræna endurgerð verði aðgengileg til lestrar á netinu og aðgengi að ritum í höfundarétti verði takmarkaður við notendur sem tengjast efninu í gegnum íslenskar netveitur, þ.e. hafa svonefndar íslenskar IP-tölur. Efnið sem er fallið úr höfundarétti verði öllum opið.

Í þriðja lagi að hagkvæmast væri að vinna verkefnið á sex árum með þremur myndavélum og tveimur vinnslustöðvum, þ.e. hjá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og Amtsbókasafninu á Akureyri.

Í fjórða lagi að skipa þurfi starfshóp með aðkomu viðeigandi hagsmunaaðila sem hefði það hlutverk að koma með tillögur að samningi um not bóka sem enn eru í höfundarétti og veita ætti aðgang að með stafrænni endurgerð. Lagt er til að höfð verði hliðsjón af norskum samningum um stafræna endurgerð norskra rita í vinnu slíks starfshóps.

Í fimmta lagi er áætlað að kostnaður við verkefnið sé, ef við miðum við ofangreindar forsendur, eftirfarandi: Stofnkostnaður sé rúmlega 46 millj. kr., árlegur launakostnaður væri um 85 millj. kr. og árlegur kostnaður við almenna varðveislu, viðhald og rekstur gagna væri 8,5 millj. kr. Árlegar höfundaréttargreiðslur yrðu á bilinu 31–36 millj. kr. ef mið er tekið af norskum samningum. Samtals væri því kostnaður yfir sex ára vinnslutímabil um 690 millj. kr. og árlegur rekstrarkostnaður um 41 millj. kr.

Virðulegi forseti. Skýrslan sem ég mæli fyrir felur í sér greiningu á kostnaði og framkvæmd þess að gera allar íslenskar bækur aðgengilegar í stafrænu formi þannig að hægt sé að lesa þær á nettengdum búnaði. Í skýrslunni er farið yfir hvern efnisþátt fyrir sig og möguleg álitaefni umfram það sem ég hef tæpt á í ræðu minni. Ég hvet þingmenn til að kynna sér efni hennar vel.

Verkið er mikilvægt og hef ég fullan hug á því að fylgja því eftir. Þetta verkefni og önnur sem tengjast íslenskri menningu og tungumálinu eru brýn til að viðhalda og efla íslenskuna. Verkefnið Máltækni fyrir íslensku er að fullu fjármagnað og hugsanlega eru einhver samlegðaráhrif þar við þetta verkefni sem kanna þarf nánar. Sömuleiðis fellur áætlun um stafræna endurgerð íslensks prentmáls vel að þeirri stefnu stjórnvalda að efla íslensku sem opinbert mál. Því er brýnt að halda þessu verkefni á lofti og fjármagna það að fullu og að því verður stefnt á næstu misserum.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka starfshópnum kærlega fyrir vel unnin störf ásamt því starfsfólki ráðuneytisins sem hefur komið að þessari skýrslu.