150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

stafræn endurgerð íslensks prentmáls vegna þingsályktunar nr. 20/148.

95. mál
[14:12]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fínustu ræðu og kannski ekki síst góð viðbrögð við umræddri skýrslu. Ég flutti um daginn, segi ég alltaf um eitthvað sem mér finnst hafa gerst um daginn en ætli það sé ekki að verða eitt og hálft ár síðan, þessa umrædda þingsályktunartillögu sem Alþingi samþykkti á endanum um að þessi skýrsla yrði gerð. Af hverju var ég að því? Jú, af því að gríðarlega mikilvægt er að við höldum vel utan um stafræna endurgerð íslensks prentmáls. Unnið hefur verið ágætlega að því nú þegar, Landsbókasafnið er að vinna að ýmsu hvað þetta varðar, handrit.is þekkjum við, islandskort.is, skemman.is, opinvisindi.is og heimildir.is. En það hefur ekki verið heildstæð hugsun hvað varðar að koma öllu íslensku prentmáli á stafrænt form.

Ég man þá tíð þegar ég bjó í Hafnarfirði, einn af fjölmörgum stöðum sem ég bjó á, og fór á bókasafnið, tók bækur til láns og kom síðar sama dag til að skila þeim af því að ég hafði lokið við að lesa þær. Þá mátti ég ekki taka fleiri bækur því að það mátti bara koma einu sinni þann dag. Fáránleg regla, að sjálfsögðu, á þeim árum og ég er ekki viss um að hún sé enn við lýði. En hér erum við að fara akkúrat öfuga leið, hér erum við að opna prentarfinn okkar allan fyrir þeim sem eru tengdir internetinu alltumlykjandi. Skiptir þá engu máli hvort þeir búa í Kópavogi eða á Kópaskeri eða hvort þeir hafa aðgang að hinum frábæru stofnunum bókasöfnum sem má finna sem betur fer víðast um landið, en ekki alls staðar. Það er nefnilega gríðarlega mikilvægt að við virðum prentarfinn okkar.

Ég er ánægður með að starfshópurinn hafi komist að þessari niðurstöðu, lagt til leiðir. Hæstv. ráðherra hefur síðan komið inn á hvaða leið henni hugnast best þannig að málið er komið á skrið. Þetta er ekki mál sem þarf að hlaupa í einn, tveir og þrír, þetta er mál sem við vinnum okkur hægt og rólega að góðri niðurstöðu um.

Hvað er stafræn endurgerð íslensks prentmáls? Ég er ekki viss um að þetta sé endilega öllum mjög tamt á tungu eða allir skilji nákvæmlega út á hvað þetta gengur. En flest okkar, í það minnsta mörg, höfum farið t.d. inn á tímarit.is. Það er stórskemmtilegt, bæði þegar þarf að leita að einhverjum upplýsingum sem við þingmenn gerum gjarnan, mættum kannski gera meira af að leita lengra aftur í tímann og virkja sögulega vitund okkar, einnig bara okkur til skemmtunar að blaða í tímarit.is. Þar getum við í dag leitað að alls kyns upplýsingum og efni aftur á þarsíðustu öld. Þetta yrði í raun tímarit.is nema fyrir íslenskar bækur, fyrir prentarfinn.

Í skýrslunni er farið vel yfir hvað það er sem þarf að gera. Athyglinni er fyrst og fremst beint að bókum sem eru kannski komnar úr almennri sölu. Þar erum við strax búin að rekast á skilgreiningarvegg. Hvað þýðir það að vera ekki lengur í almennri sölu? Að sjálfsögðu þarf að semja við höfundaréttarhafa, þó það nú væri að þau sem hafa skrifað þessar frábæru bækur okkar og eiga enn höfundaréttinn fái fyrir það greiðslu. Við höfum ágætisfordæmi af þessu í Noregi, Bokhylla heitir það ágæta fyrirbæri, og kemur fram í skýrslunni að horft verði sérstaklega til þess hvernig farið er með höfundaréttarsamninga og ýmislegt fleira.

Forseti. Ég ætlaði í sjálfu sér ekki að hafa þetta lengra. Ég lýsi bara aftur yfir ánægju minni á góðum undirtektum á þessu máli. Það var samþykkt hér, ef ég man rétt, samhljóða á sínum tíma og nú er þessi góða skýrsla komin, áætlun um hvernig við getum komið þessu í verk.