150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

stafræn endurgerð íslensks prentmáls vegna þingsályktunar nr. 20/148.

95. mál
[14:17]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á að þakka fyrir þessa ágætu skýrslu og þakka ráðherra fyrir framsögu hennar og atbeina í þessu máli öllu. Þessi skýrsla er, eins og fram hefur komið, um stafræna endurgerð íslensks prentmáls þar sem mennta- og menningarmálaráðherra var falið að skipa starfshóp sem gerði kostnaðar- og tímaáætlun um stafræna endurgerð íslensks prentmáls sem verði aðgengileg til lestrar á nettengdum búnaði og kanni möguleika þess að ná samningum við höfundaréttarhafa um slík afnot stafrænnar endurgerðar ritverka, eins og það var orðað þegar lagt var upp með þetta.

Meginniðurstöður og tillögur starfshópsins eru í sem allra stystu máli þessar: Að miða skuli áætlun um stafræna endurgerð íslensks prentmáls við bækur á íslensku, bæði frumsamdar og þýddar, sem skráðar eru í bókasafnskerfið Gegni. Rakið er í þessari góðu skýrslu að fjöldi skráðra rita á árabilinu 1850–2015 er rúmlega 88.000 og miðað við ætlaðan meðalfjölda blaðsíðna bóka væri heildarfjöldi blaðsíðna á þessu tímabili rúmlega 9,3 milljónir. Fjallað er um fyrirkomulag og kostnað. Ég tel að því fé sem þarna á að veita sé vel varið. En ég leyfi mér að vænta þess, herra forseti, að hæstv. ráðherra greini nánar frá fjármögnun verkefnisins í lokaræðu sinni hér.

Herra forseti. Ég tek undir með ráðherra þegar hún áréttar að þetta verkefni um stafræna endurgerð íslensks prentmáls fellur vel að meginmarkmiðum stjórnvalda á sviði menningar, sérstaklega um að bæta, eins og það heitir, aðgengi að menningararfinum. Ef það verður að veruleika mun allur almenningur getað lesið þær bækur sem verkefnið tekur til á netinu í opnum aðgangi. Þetta verkefni um stafræna endurgerð íslensks prentmáls samrýmist einnig vel stefnu stjórnvalda um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi, samanber þingsályktunartillögu um það efni sem samþykkt var 7. júní á liðnu ári. Hin stafræna endurgerð íslensks prentmáls er ekki einungis fallin til að auka aðgang almennings að íslenskum bókmenntaarfi og styrkja þannig bókmenningu heldur mun slík stafræn endurgerð nýtast í máltækniverkefni.

Þetta mál lýtur að því, í sem allra stystu máli, að efla íslenska tungu. Ekki er úr vegi þegar þau mál eru á dagskrá að vísa stuttlega til hinnar sígildu ritsmíðar Sigurðar Nordals prófessors, Samhengið í íslenskum bókmenntum. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Samhengið í máli og menntun Íslendinga er engin tilviljun. Vér höfum ekki varðveitt það fyrir svefn og einangrun, ekki verið nein Þyrnirósa meðal þjóðanna, heldur vakað yfir því og staðið á varðbergi, höfundar og lesendur verið samtaka.“

Áfram segir:

„En bókmenntaarfleifð þjóðarinnar er enginn dúnsvæfill, sem hún getur lagzt á til að dreyma um liðna daga. Vér megum búast svo við, að enn sé óslitin barátta fram undan. Vér höfum að vísu rekið af höndum oss ýmis áhlaup. En sigurlaun lífsins eru aldrei hvíld, heldur kostur á að halda vörninni áfram.“

Næst víkur Sigurður Nordal að erlendum áhrifum en segir í framhaldi af því, með leyfi forseta:

„En hættan getur ekki einungis stafað frá þeim sem vilja opna mál vort og menntir upp á gátt fyrir erlendu vogreki. Hitt er ekki síður varhugavert, að vilja gera landið að þjóðlegu fjósi, þar sem enginn erlendur ljósgeisli skín inn …“

Loks vil ég vitna til orða Sigurðar Nordals í þessari tilvitnuðu grein þegar hann spyr:

„En hvers vegna eigum vér að varðveita þetta samhengi?“ — Samhengið í íslensku máli og bókmenntum. — „Er það nokkuð annað en metnaður? Að vísu er það metnaður. Þær kynslóðir, sem héðan af glötuðu því, myndu verða frægar að endemum, nema aðrar enn vesalli kæmu á eftir. Allt þjóðerni er að miklu leyti tilfinningamál. En auk metnaðarins má leiða að því ýmis skynsamleg rök að Íslendingar séu betur fallnir en ella, ef þeir varðveita samhengið sem vandlegast, bæði með því að þekkja bókmenntir sínar og sögu þeirra frá upphafi til enda og taka tillit til þeirrar arfleifðar, þegar þeir skapa ný verk.“

Þetta ágæta þingmál leiðir sömuleiðis hugann að því að undir lok nýliðinnar aldar kom út á vegum Hins íslenska bókmenntafélags Íslensk hómilíubók, eins og hún heitir, fornar stólræður, sem rituð var um aldamótin 1200. Um þessa bók sagði Jón Helgason, skáld og prófessor í Kaupmannahöfn, með leyfi forseta:

„… óvíða flóa lindir íslenzks máls tærari en í þessari gömlu bók, og er sá íslenzkur rithöfundur sem ekki hefur þaullesið hana, litlu betur undir starf sitt búinn en sá prestur sem enn á ólesna fjallræðuna.“

Mig langar loks að nefna það, herra forseti, að þetta ágæta þingmál leiðir enn fremur hugann að nauðsyn góðrar kennslu í íslensku á öllum skólastigum. Ekki er seilst um hurð til lokunnar með því að vísa til orða meistara Þórbergs um kennara sinn, dr. Björn Bjarnason frá Viðfirði, hinn mikilsvirta skörung íslenskrar tungu, en Þórbergi farast svo orð um hann í Ofvitanum, með leyfi forseta:

„En það var fræðsla doktors Björns, meira en allt annað, sem hélt mér í skólanum til vorsins. Hann kenndi af áhuga og sannleiksást og öll kennsla hans lýsti miklum skýrleika í hugsun, sívakandi fjöri og klassískri tign. Hann kenndi ekki hratt því honum var fremur stirt um talanda og það var sennilega að nokkru leyti þess vegna að flest sem hann sagði okkur í kennslustundunum var á þann veg mótað að það leið mér ógjarnan úr minni.“

Hann segir enn fremur:

„Doktor Björn lýsti hið þrönga og óskýra sjónarsvið kennslubókanna og lífgaði tímana með einhverju sem ég hafði aldrei heyrt áður. Það rann upp ljós fyrir mér í kennslustundum hans. Ég var alltaf að skilja eitthvað sem ég hafði ekki skilið fyrr, ekki einu sinni dottið í hug áður. Það var eins og rúmtak sálarinnar þendist út og lýstist með hverri kennslustund. Þetta fannst mér undursamlega skemmtilegt.“

Herra forseti. Við þurfum að styðja vel við kennara í íslensku á öllum skólastigum eins og við alla þá sem hafa kennslu með höndum.

Ég þakka, herra forseti, þessa ágætu skýrslu um stafræna endurgerð íslensks prentmáls og bind vonir við að þau áform sem í henni er lýst skili góðum árangri og stuðli að eflingu íslensks máls og þjóðmenningar.