150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

stafræn endurgerð íslensks prentmáls vegna þingsályktunar nr. 20/148.

95. mál
[14:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Eins og aðrir þingmenn sem hér hafa talað fagna ég skýrslunni og þakka hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur fyrir ljóðið, að hafa flutt það hér. En auðvitað kemur það í hlut Píratans að vera með leiðindi og tækniblaður. En það er því miður það sem ég þarf að fara út í hér í sambandi við málið. Skýrslan er góð. Markmiðið er jákvætt og frábært en það er smágalli á nokkrum hlutum í útfærslu tillagnanna sem mig langar að fjalla um. Það er sér í lagi tvennt eða þrennt. Það er annars vegar hin svokallaða IP-blokkun sem felur í sér að efnið verði einungis aðgengilegt á svokölluðum IP-tölum, sem má líta á sem einhvers konar símanúmer tölvanna á internetinu eða kennitölur þeirra eða eitthvað slíkt, og hins vegar það sem er fjallað um í skýrslunni að gera efni einungis lesanlegt af skjá, þ.e. þannig að ekki sé hægt að hala því niður eða prenta. Sú tækni er kölluð DRM á ensku, skammstöfuð þannig, eða Digital Rights Management. Það er dulkóðunartækni sem felur í sér að efnið er einungis nothæft á þannig tækjum sem er sérstaklega heimilt að afdulkóða efnið sem um ræðir. Þetta er t.d. mikið notað á Netflix og Spotify og er tiltölulega algengt í dreifingu og miðlun á afþreyingarefni. Sá galli er við þessa tækni, DRM, að ekki er hægt að hala niður efni, prenta út eða afrita eða rannsaka eða brytja það niður í gagnagrunn og gera á því einhverjar greiningar, nema þá með þeim tólum sem hafa verið sérstaklega hönnuð til að geta ráðið við nákvæmlega það efni. Það verður með öðrum orðum mjög dýrt að rannsaka slíkt efni vegna þess að rannsóknir geta einungis farið fram af hálfu þess sem hefur sérstakt leyfi til að skoða það. Það tel ég fara svolítið gegn markmiði sem einnig er nefnt í skýrslunni, þ.e. að þetta eigi að auka við rannsóknir á efni þessara bóka, sem ég tel mjög mikilvægt og jákvætt markmið, eins og ég held að flestir telji hér inni. En ekki er hægt að gera það með góðu móti meðfram DRM-tækninni, þarna er ákveðin mótsögn. Fólk þarf svolítið að ákveða hvort það vilji einungis hafa þetta lesanlegt af skjá og þar af leiðandi ekki rannsakanlegt eða hvort það vilji hafa það lesanlegt á fleiri máta og gera það þar af leiðandi á einhvern hátt tölvulæsilegt eða í það minnsta rafrænt og þá væri hægt að nota það til rannsókna og til að efla íslenska tungu og allt það.

Þarna eru tvö markmið sem stangast svolítið á, þ.e. beiting þessarar afritunarvarnar DRM-tækninnar annars vegar og rannsókna hins vegar. DRM-tæknin er beinlínis og bókstaflega hönnuð til að gera slíka meðhöndlun gagna ómögulega. Hún er beinlínis hönnuð til nákvæmlega þess og einskis annars í þágu þess að vernda réttindi og fjárhagslega hagsmuni höfunda, sem er ekki slæmt markmið út af fyrir sig, tæknin virkar bara eins og hún virkar og henni er alveg sama hvort okkur finnist það sanngjarnt eða ekki.

Hitt er síðan hvað varðar hina svokölluðu IP-blokkun, ég verð að fara stuttlega út í það hvað það þýðir. Tölvur á internetinu eru almennt með svokallaða IP-tölu. Það er aðeins flóknara en það að mér gefist tími til að útskýra það í smáatriðum hér. En almennt er hægt að komast að því frá hvaða landi eða svæði einhver kemur á internetinu með því að sjá IP-töluna og alltaf þegar tölva tengist þarf hún að senda einhverja IP-tölu. Yfirleitt er það IP-tala sem er útgefin af internetfyrirtækinu. Sem dæmi: Ef ég er hjá Símanum og ég er á internetinu og ég fer inn á vefsíðu getur sú vefsíða séð að ég er hjá Símanum, ef ég er tengdur í gegnum Símann. Ef ég er hjá Hringdu veit síðan að ég er þar, hún getur komist að þetta miklu. Það er ekkert mál að komast fram hjá þessu ef maður hefur minnsta áhuga á því, t.d. með því að nota VPN, sem ég nota grimmt sjálfur, sérstaklega þegar ég er í útlöndum á neti sem ég treysti ekki. Það er ekkert mál að komast fram hjá þessu ef maður hefur viljann til þess. Fæstir hafa samt vilja til þess, hugsa ég. En alla vega: Þetta er það sem það þýðir að vera á íslenskri IP-tölu. Það er almennt hægt að sjá í það minnsta frá hvaða landi þú ert og hjá hvaða þjónustuaðila.

Í þessari skýrslu er lagt til að þetta verði sett upp þannig að einungis beiðnum eða heimsóknum frá íslenskum IP-tölum, nefnilega tölvum sem eru staðsettar á Íslandi, verði heimilt að sækja þetta efni. Ég hef nokkrar athugasemdir við það. Í fyrsta lagi er mér fyrirmunað að skilja til hvers. Allt þetta efni sem við erum að ræða hér um er íslenskt á íslenskri tungu og langflestir sem tala íslensku búa á Íslandi. Nú hef ég heyrt mismunandi tölur um það hversu margir Íslendingar búa erlendis en þeir eru varla fleiri en Íslendingar sem búa á Íslandi. Þeir eru varla fleiri en örfáir tugir þúsunda, geri ég ráð fyrir, ef þá það. Þá verðum við að velta fyrir okkur hvers konar kostnað það gæti mögulega sparað að takmarka þetta við Ísland yfir höfuð. Ef Íslendingur sem er búsettur hér fer til Danmerkur og er þar einhvers staðar í heimsókn og ætlar að skoða bók á netinu, af hverju þarf að takmarka það vegna þess að hann er staðsettur í Danmörku? Hvernig er það meiri skaði en ef Íslendingurinn er staðsettur á Akureyri eða Kópaskeri eða hvar sem er? Ég veit ekki alveg hvaða vandamál er verið að reyna að leysa þarna. Mér sýnist það vera einhver svona sjálfkrafa viðbrögð sem koma oft upp í höfundaréttarmálum, það þarf einhvern veginn að passa að allt sé rosalega lokað og erfitt til að fólki líði betur með það án þess að það átti sig endilega á því hvert markmiðið er og hvort því markmiði verði náð með þeirri tæknilegu lausn sem stungið er upp á. Það er grunur minn. Ég get ekki fullyrt það vegna þess að ég skil ekki alveg hvers vegna lagt er til að fara þessa leið. Ég átta mig á því að Noregur fór þessa leið og Noregur notar líka DRM-tækni, en ég tel að það sé bara til trafala, spari engan pening og verndi engar tekjur og geri ekkert gagn, þó með þeim fyrirvara um DRM-tæknina að vegna þess að hún kemur í veg fyrir að fólk hali efninu niður og dreifi því annars staðar er hægt að færa rök fyrir því, ekkert ofboðslega sannfærandi rök í mínum huga, að það sé líklegt til að draga úr tekjum höfunda. Gefum okkur að svo sé þá er samt sem áður eftir þessi vankantur að við erum sömuleiðis að takmarka getuna til að nota efnið til rannsókna og sér í lagi til íslenskugreiningar eða einhvers slíks. Alltaf þegar nota á efnið eitthvað öðruvísi en að lesa það af skjá verður það vandamál með DRM-tækninni.

Ég verð að nefna að á bls. 14 er aðeins fjallað um ýmsar leiðir sem hægt er að fara hvað varðar að greiða höfundum fyrir afnot bóka. Það er það sem þetta snýst allt saman um. Þaðan kemur hugmyndin um að blokka IP-tölur og nota DRM-tækni. Eins og við Píratar höfum oft bent á hafa höfundaréttarmál, svona hefðbundin framfylgni höfundaréttar og tilraunir til að halda í hefðbundnar útfærslur á honum og framfylgni, tilhneigingu til að leiða af sér hliðarskaða sem getur orðið meiri en vandamálið sem verið er að reyna að leysa. Ég tel það vera tilfellið í þessu. En hvað sem því líður er á bls. 14 fjallað stuttlega um það sem kallað er þýska leiðin. Þá fá höfundar svona upphafsgreiðslu — ég sé það ekki í textanum í augnablikinu hvernig það er orðað, einskiptisgreiðslu í upphafi, og síðan fyrir afnot af efninu. Þarna langar mig að vekja fólk aðeins til umhugsunar um hvað verið er að segja. Það er eitthvað sem virðist kannski saklaust alveg í byrjun og er sennilega allt í lagi þegar kemur að þessum bókmenntum, hugsa ég, en felur í sér að fylgst er með því hvað fólk les. Sú var tíðin í gamla daga að miklu óvinveittari stjórnvöld voru í Þýskalandi og Sovétríkjunum og víðar og þar vildi fólk kannski bara hafa það fyrir sig hvað það væri að lesa. Eflaust eru þarna bækur sem eru með alls konar glannalegar kenningar og alls konar hættulegar hugmyndir um það hvernig heimurinn gæti verið allt öðruvísi ef allt kerfið væri öðruvísi, ef stjórnvöld væru ekki þau sem þau eru o.s.frv. Eflaust er það allt í góðu með þessi tilteknu stjórnvöld akkúrat núna, ég efast ekki um það. En þau geta orðið vond. Þau geta ákveðið að fara að fylgjast með því hvað fólk les og draga af því ályktanir um ætlun og innræti þeirra sem lesa. Eins og ég segi hef ég engar áhyggjur af því að þetta gerist í nánustu framtíð en við sjáum líka þróunina í heiminum og stundum blöskrar manni hvað fólk getur samþykkt í hinum svokallaða vestræna heimi þegar kemur að því að ganga á borgaraleg réttindi í þágu þess að halda útlendingum úti eða vernda meinta þjóðaröryggishagsmuni eða hvaðeina. Það er ekkert rosalega langt í það. Það þarf ekki rosalega margt að breytast til að slíkar hugmyndir verði frekar sjálfsagðar, nefnilega að fylgjast með því hvað fólk les til að greina það pólitískt þannig að það hafi hugsanlega pólitískar afleiðingar.

Það, virðulegi forseti, má ekki gerast. Þar er ákveðinn galli við að beita alla vega DRM-tækninni til að passa það hver er að lesa hvað á netinu. Þetta er svo sem ekki vandamál sem einskorðast við þessa tilteknu tillögu. Þetta er bara eitthvað sem er þess virði að hugsa um vegna þess að stundum finnst mér við fljóta sofandi að feigðarósi þegar kemur að því hverju er fylgst með af því sem við gerum á netinu. Ætti flestum að finnast nóg um nú þegar og þarf ekkert að leita til íslenskra yfirvalda eða til Sovétríkjanna til að finna ægileg dæmi. Það má finna slík dæmi í frjálslyndum lýðræðisríkjum í dag, ég ætla ekki að nefna nein nöfn en fyrsti stafurinn er Bandaríkin og reyndar væri hægt að draga fleiri fram.

Þegar við erum að reyna að búa til einhver viðskiptamódel sem henta höfundum verðum við líka að hafa þessa hluti í huga. Ekkert af því sem ég hef sagt hér er á neinn hátt hugsað til að draga úr rétti höfunda til að fá greitt fyrir vinnu sína. Það er mjög mikilvægt og er, meðan ég man, fyrsta setningin í stefnu Pírata um höfundarétt, þ.e. að höfundar eigi rétt á að fá borgað fyrir sína vinnu. En það skiptir máli hvernig það er útfært og það skiptir máli að við vörum okkur á einhverjum hliðaráhrifum af þeim ákvörðunum sem við tökum til að reyna að framfylgja þeim rétti.

Að lokum, til að reyna að hafa þetta á jákvæðum nótum líka, þá er þetta mjög góð skýrsla. Að því sögðu, burt séð frá þessum hlutum, þá er það mjög mikilvægt verkefni sem hér er lagt til að farið verði í, ekki bara til afþreyingar heldur ekki síst til rannsókna og ekki síst til að viðhalda íslenskri tungu sem ég tel vera eitt af því mikilvægara sem við getum gert með tillögum sem þessum.