150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

stafræn endurgerð íslensks prentmáls vegna þingsályktunar nr. 20/148.

95. mál
[14:56]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem við eigum um skýrslu hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um stafræna endurgerð íslensks prentmáls vegna þingsályktunar nr. 20/148. Hér erum við komin með skýrslu sem afmarkar vel viðfangsefnið og greinir kostnaðinn við að fara í stafræna endurgerð á íslensku prentmáli. Það er gott þegar brugðist er hratt við þeim verkefnum sem þingið leggur fyrir framkvæmdarvaldið, eins og hér er gert, og við erum komin með útlistun á verkefninu. En það er líka bent á frekari vinnu sem þarf að fara í. Ég held að mikilvægt sé að tryggja það strax í upphafi verkefnisins að stafræn endurgerð verði frá upphafi aðgengileg fyrir prentleturshamlaða einstaklinga. Þar er eftir vinna til að finna út hvernig það er best gert og mér sýnist að það gæti fallið vel að vinnu við að skoða enn betur ýmsar tæknilegar útfærslur, sem ég ætla ekki að fara eins nákvæmlega út í og sá þingmaður sem talaði hér á undan mér, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson. En ég held að mjög mikilvægt sé að skoða tæknina vel áður en hafist er handa einmitt út frá ýmsu sem hann benti á, rannsóknarhagsmunum og tengslum við máltækni.

Einnig er bent á það í skýrslunni að mikilvægt sé að skipa annan starfshóp til þess að fjalla um höfundaréttinn og samninga við rétthafa, þann starfshóp sem gæti komið með nákvæmar tillögur um hvaða not yrðu heimiluð af verkum sem enn eru í höfundarétti og hvernig endurgjald yrði fyrir þau not. Stafræn endurgerð, eins og hér er lagt til að verði farið í, fellur vel að markmiðum stjórnvalda um að bæta aðgang að menningararfinum og efla íslenska tungu. Það tengist verkáætlun í máltækni fyrir íslensku og öllu því sem þar er unnið og fellur algjörlega að þeirri þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi sem við samþykktum á síðasta þingi, en þar eru markmiðin að íslenska verði notuð á öllum sviðum samfélagsins, að íslenskukennsla verði efld á öllum skólastigum ásamt menntun og starfsþróun kennara og að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi verði tryggð.

Þessi endurgerð fellur að þessum markmiðum og tengist beint ákveðnum aðgerðum í þeirri áætlun. Eins og fram kemur í skýrslunni mun stafræn endurgerð stórauka aðgengi almennings að íslenska bókmenntaarfinum og eins og ýmsir hafa rakið hér er auðvitað búið að koma ýmsu efni inn á vefi á stafrænu formi, eins og tímarit.is, bækur.is og heimildir.is. Ljóst er að þeir vefir, ekki síst tímarit.is, hafa nú þegar orðið til þess að bylting hefur orðið í rannsóknaraðferðum og fræðavinnu með öflugri textaleit í miklu magni efnis samhliða því sem almenningur hefur aðgang að efni sem áður var aðeins hægt að nálgast á lesstofum. Því er mjög mikilvægt í þessari vinnu — nú færist rannsóknarvinnan hugsanlega úr skjalasöfnum og bókasöfnum mikið inn á vefinn — að ekkert gleymist. Það er eitt af því sem ég held að þurfi að hyggja mjög vel að, að ekkert efni verði út undan.

Mig langar aðeins að koma inn á það hvar vinnan muni fara fram. Lagt er til að hún fari fram á þremur stöðum og það liggur í hlutarins eðli að vinnan þarf að fara fram þar sem prentaða efnið er fyrir á bókasöfnum sem taka við skylduskilum. En ég vil benda á þann möguleika að vinnan geti hafist á Akureyri þó að hún þurfi svo að fara fram á þessum þremur bókasöfnum sem nefnd eru í skýrslunni.