150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

stafræn endurgerð íslensks prentmáls vegna þingsályktunar nr. 20/148.

95. mál
[15:06]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum skýrslu mennta- og menningarmálaráðherra um stafræna endurgerð íslensks prentmáls vegna þingsályktunar nr. 20/148. Ég skal alveg viðurkenna að ég var svolítið spurningarmerki þegar ég sá þessa skýrslu en hafði svo mjög gaman af því að kynna mér hana vegna þess að í skýrslunni opnaðist fyrir mér ýmislegt sem ég hafði farið á mis við. Þess vegna setti ég spurningarmerki við það sem er búið að gera, en það eru taldir upp vefir í skýrslunni eins og bækur.is, tímarit.is, handrit.is, Íslandskort.is, skemman.is og opinvisindi.is. Hvernig er með kynningu á þessu til almennings? Hvernig hefur hún farið fram? Ég veit það ekki. Ég hef ekki tekið eftir henni þannig að ég spyr mig hvort það hafi gleymst að sjá til þess að allur almenningur viti af því að þetta er í boði.

Svo vil ég taka undir það sem Hanna Katrín Friðriksson sagði áðan, það er eitt sem við megum aldrei gleyma og það er aðgengi fatlaðra. Við vitum að aðgengi fatlaðra að opinberum stofnunum, eins og t.d. bara bókasöfnum og öðru, er ekki í fullkomnu lagi en stafrænar bækur og efni á netinu er mun aðgengilegra fyrir þá. En þá kemur líka upp sú spurning sem hefur verið velt upp hérna, það er aðgengi þeirra sem eru blindir. Það þarf að vera talgervill þannig að það sé hægt að hlusta. Okkur ber skylda til að sjá til þess að það verði gert. Ég hef trú á því að það verði.

Síðan var annað sem velt var upp og ég er að mörgu leyti sammála og Helgi Hrafn Gunnarsson benti á, í sambandi við IP-töluna, að hún þyrfti að vera íslensk. Það getur ekki gengið upp vegna þess að ég held að það séu nálægt 50.000 Íslendingar búsettir erlendis, síðast þegar ég vissi. Það er ekki í lagi að þeir hafi ekki aðgang að þessu, sérstaklega ef við horfum á það að rökin fyrir þessu séu að útlendingar komist ekki inn á þetta. Ég myndi bara að þakka fyrir hvern útlending sem myndi fara þarna inn og reyna að lesa íslensku eða hlusta á hana. Við ættum frekar að hvetja til þess heldur en að hafa áhyggjur af því. Það væri mjög brýnt. Ég sé að þetta er mjög brýnt verkefni og á margan hátt mjög gott.

Ég fór líka í gegnum kostnaðarmyndunina í þessu verkefni. Það kom mér svolítið á óvart þegar maður sér ársverkin sem eiga að fara í þetta og hvernig þau skiptast, maður sér þar ákveðnar launaupplýsingar, hverjir hafa betri laun en aðrir í svona vinnslu. Síðan var auðvitað hitt sem var líka sláandi en það er að fimm ára framkvæmdaáætlunin og sú sem er til sex ára eru mjög svipaðar að kostnaði en sú dýrasta var nærri því 100% dýrari. Ég segi fyrir mitt leyti: Ég vona heitt og innilega að tekin verði annaðhvort fimm ára eða sex ára áætlunin, annað væri kjánalegt, hitt er svo miklum mun dýrara að það er eiginlega ekkert vit í því að borga helmingi meira fyrir nákvæmlega sama verk.

Mér finnst þetta hið besta mál og ég vona heitt og innilega að þetta komist í gagnið. Það sem kom mér líka á óvart var hversu rosalega mikið er búið að færa yfir á stafrænt form. Bækur frá því fyrir 1850, þar er 70% komið inn. Það er frábært og hið besta mál þannig að þetta verður þá bara klárað. Og eins og ég segi þá verður vonandi þannig gengið frá þessu að allir viti af þessu og að allir geti nýtt sér þetta og þá skipti engu máli hvar í heiminum viðkomandi er, hvort sem hann er Íslendingur eða útlendingur. Ef útlendingur vill kynna sér þetta á hann bara rétt á að kynna sér þetta. Þá fær höfundurinn vonandi sín höfundarlaun eins og fyrir önnur hugverk, lög og texta og annað, en ég hef þetta ekki lengra.