150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

stafræn endurgerð íslensks prentmáls vegna þingsályktunar nr. 20/148.

95. mál
[15:12]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir að hafa lagt fram þingmálið sem leiddi svo af sér þessa skýrslu sem hæstv. ráðherra mælir hér fyrir í dag og þakka ég fyrir hennar innlegg líka. Mörgum hefur orðið tíðrætt um mikilvægi þess að eiga kost á því að nota íslensku í hinum stafræna heimi líkt og önnur tungumál. Stafræn endurgerð íslensks prentmáls er vissulega liður í því og myndi styðja við það markmið að efla íslensku í hinum stafræna heimi. Er það í samræmi við menningarstefnu íslenskra stjórnvalda auk þess sem það myndi stuðla að varðveislu menningararfsins. Jafnframt tel ég að aukið aðgengi að menningararfi þjóðarinnar geti leitt af sér töluverða grósku og nýsköpun á sviðum á borð við listir, menningu og tækni, enda verða slík verk sjaldnast til í tómarúmi.

Mig langar hins vegar að leggja áherslu á notkun íslenskrar tungu í hinum stafræna heimi. Í dag er víðast hvar sjálfsagður hlutur að geta talað við tækin, allt frá því að geta kveikt eða slökkt á kaffivélinni á morgnana í að geta beðið um leiðbeiningar að tilteknum ferðamannastað á ferð um ókunn lönd og jafnvel verslað á netinu. Slíkar framfarir eru spennandi og leiða af sér ýmsa möguleika til að létta okkur lífið og mér finnst nokkuð ólíklegt að slíkri tækni muni fara hnignandi á næstu árum. Þvert á móti held ég að hún muni verða sífellt meira áberandi og öðlast meira notagildi í hversdagslífi okkar meðfram því að tæknin verður þróaðri og fjölbreyttari. Að mínu mati undirstrikar þessi þróun mikilvægi þess að gera íslenska tungu gjaldgenga í hinum stafræna heimi, að við getum talað við tækin á okkar móðurmáli og þau skilið okkur. Ég er nefnilega ansi hrædd um að ef við getum ekki notað íslenskuna í okkar daglega lífi í samskiptum okkar við tækin þá séum við að takmarka notagildi íslenskunnar að því marki að það gæti haft gríðarleg áhrif á framtíðarhorfur hennar. Í mínum huga væri það nánast jafn mikil takmörkun og að geta ekki skrifað á íslensku í tölvunum okkar eða framkvæmt einfalda leit á veraldarvefnum á íslensku. Þó að við teljum mál okkar merkilegt er íslenskan örmál í hinum stóra heimi og því afskaplega nauðsynlegt að við hlúum að tungumálinu okkar á öllum sviðum.

Í því ljósi er það mikið gleðiefni að nú sé þessi skýrsla komin fram enda einn mikilvægur þáttur í þessari vegferð okkar. En ég vil líka fagna verkefnum eins og Samrómi sem er einmitt ætlað að styrkja stöðu íslensku í hinum stafræna heimi með því að taka upp og safna hljóðupptökum á íslensku. Svo má líka nefna framtak eins og Stafrænt Ísland sem er m.a. ætlað að byggja upp og efla stafræna innviði við opinbera þjónustu. Þessi verkefni sem og sú skýrsla sem við ræðum hér í dag eru öll mikilvæg í þessu stóra verkefni okkar sem er að viðhalda íslensku í heimi spennandi og örra samfélagslegra og tæknilegra breytinga.