150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

stafræn endurgerð íslensks prentmáls vegna þingsályktunar nr. 20/148.

95. mál
[15:20]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa skýrslu og þeim sem hana unnu. Hér er greinargóð og ítarleg skýrsla. Ég ætla líka að þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir þingsályktunartillöguna sem hann flutti og ég var reyndar meðflutningsmaður á. Ég skal viðurkenna að þegar hv. þingmaður kom að máli við mig til að óska eftir meðflutningi þá vissi ég ekki alveg í hvorn fótinn ég átti að stíga en ákvað að vera með því að það væri áhugavert að fá fram þessa skýrslu og þessar greiningar. En ég held að ég hafi örugglega látið þess getið jafnframt að ég væri með því ekki að lofa jái við auknum ríkisútgjöldum með neinum hætti.

Að því sögðu er alveg ljóst að það eru ýmis tækifæri í því að koma okkar mikilvæga bókmenntaarfi á stafrænt form. Það er bæði til að auka aðgengi almennings að þessum mikilvæga íslenska bókmenntaarfi og styrkja bókmenntamenningu en það geta líka falist í þessu ákveðin tækifæri til nýsköpunar og það er kannski það sem mér finnst sérstaklega áhugavert. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég er smávonsvikin með að bókaútgefendur hafa ekki að mínu mati náð að þróast alveg á fullum hraða í því að gefa út rafbækur. Ég hefði viljað sjá þá þróun meiri og hraðari. Ég tek sem dæmi tónlistina sem fyrir áratug tók algjöra U-beygju yfir í stafrænt form. Ég ætla þó að hrósa bókaútgefendum, sérstaklega fyrirtækjum sem hafa farið út í hljóðbækur, ég fagna því mjög verandi móðir unglingsdrengja sem ég á erfitt með að fá til að lesa, eins mikilvægt og það er, en þeir eru mjög duglegir að hlusta og það er þó alla vega eitthvað.

Ég verð að viðurkenna líka að það kom mér á óvart að sjá í skýrslunni að það væri þegar búið að færa um 70% bóka sem gefnar voru út fyrir 1850 á stafrænt form. Ég fór í fyrsta skipti áðan inn á bækur.is og tek undir með hv. þingmanni sem kom inn á það áðan að það mætti kynna þetta meira. Það er virkilega áhugaverður vefur. Tímarit.is held ég að allir þekki orðið í dag og maður sér á þeim vef hvað það er mikilvægt og margir geta nýtt sér það. Þá minni ég aftur á það að gögn geta verið ákveðinn auður og hvatt til nýsköpunar. Ég verð svo sannarlega ánægð að geta fundið uppáhaldshöfundinn minn, fyrrverandi hæstv. forseta þings, Guðrúnu Helgadóttur, og bækur hennar á netinu. Það eru bækur sem oft er orðið erfitt að ná í í bókabúðum og Kolaportið kemur t.d. þar sterkt inn þegar mann langar að ná í fallegan og góðan auð þaðan.

Að þessu sögðu þá sé ég mikil tækifæri í þessu verkefni. Ég ætla þó, eins og fleiri þingmenn hafa nefnt hér, að velta þessu upp með IP-tölurnar, vil þá kannski fyrst og fremst vísa til fjölda Íslendinga erlendis og fjölda barna sem eru að alast upp erlendis og hafa kannski skert aðgengi að íslensku og íslensku menningarefni, bæði bókum og öðru. Ég hef áður rætt við hæstv. ráðherra varðandi það góða efni sem t.d. RÚV framleiðir fyrir börn, mikilvægi þess að opna á það þannig að Íslendingar erlendis geti neytt þess og auðvitað allir hérna, hvort sem það eru börn eða fullorðnir.

Mér fannst líka áhugavert að hér talaði hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson áðan um bækur og að þær væru líka markaðsvara. Mér finnst mjög mikilvægt að gleyma því ekki. Ég veit að það stendur í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni að við erum að velta fyrir okkur bókum sem eru ekki lengur söluvara, ég held að það sé orðið sem er notað, og það er spurning um skilgreininguna á því, að þær hafi náð þeim aldri að vera ekki lengur söluvara á markaði. Ég velti samt fyrir mér að þegar bækur eru komnar á stafrænt form, hvort þær séu þá ekki enn þá markaðsvara. Mér finnst mikilvægt að gleyma því ekki því að þó að við séum hér að tala um menningu þá er líka stutt í skapandi greinar og iðnað eins og hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson, sem jafnframt er rithöfundur, kom inn á. Þetta er líka framleiðsla á afþreyingu fyrir almenning og mér finnst mikilvægt að það gleymist ekki.

Þess vegna langar mig líka að velta því upp hvort það sé eina leiðin eða skynsamlegasta leiðin, hyggjumst við fara í þetta verkefni sem flestir hér virðast vera sammála um að sé mikilvægt, að ríkið þurfi að fjárfesta í þar til gerðum tækjum og tólum, ljósmyndavél, einhvers konar skönnum eins og tilgreindir eru í skýrslunni og starfsmenn opinberra safna taki verkið að sér. Nú spyr sá sem ekki veit: Á einhver svona tæki og tól úti á markaði? Getur verið að einhverjir aðilar á markaði væru tilbúnir að taka þetta verkefni að sér? Mig langar að hvetja til þess að það verði skoðað.

Ég ætla líka að ítreka það sem sumir hafa komið inn á og talað um varðandi höfundaréttinn. Ég held að það skipti ofboðslega miklu máli og það þarf að tryggja að höfundar þessara verka fái sinn skerf af því. Þetta sé ekki bara hugsað sem menningararfur, sem það vissulega er, heldur líka að þetta kunni að einhverju leyti enn að vera markaðsvara.

Ég þekki ekki til DRM-tækninnar sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom svolítið inn á, ég viðurkenni vanþekkingu mína þar, en honum tókst samt örlítið að hræða mig þegar maður hugsar um persónuverndarsjónarmið og annað. Ég æski þess að það verði skoðað sérstaklega að ekki sé hægt að rekja það sem fólk er að lesa á slíkum vef.

Ég held ég hafi þetta ekki lengra. Ég þakka fyrir þessa skýrslu. Ég get tekið undir mikilvægi þess að þetta verkefni verði unnið en ég vil jafnframt að skoðaðar verði fleiri leiðir til að ná fram þeim markmiðum sem hér eru sett, þ.e. að horfa til aðila sem eru úti á markaði og kanna hvort þeir geti með einhverjum hætti sinnt þessum verkefnum með okkur.