150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

stafræn endurgerð íslensks prentmáls vegna þingsályktunar nr. 20/148.

95. mál
[15:28]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Þessi forvitnilega og ítarlega skýrsla varpar, eins og komið hefur fram, margvíslegu ljósi á þetta brýna og nauðsynlega verkefni, að koma prentmáli í stórum stíl á stafrænt form. Ég vil eins og margir aðrir nota tækifærið og þakka fyrir þá vinnu og annað sem að þessu snýr.

Málið snýst um milljónir síðna. Það eru nokkrar mismunandi leiðir hvað kostnað og tímalengd varðar að ná þessu marki. Ég ætla ekki að taka afstöðu til heppilegustu leiðanna en vil sjá að teknar verði tilheyrandi ákvarðanir mjög fljótlega og verkefnið skilgreint og hafið, samanber orð hæstv. ráðherra. Ég geri mér alveg grein fyrir að þetta mun taka nokkurn tíma, sem er kannski ekki aðalatriði, en þó, að reynt sé að búa þannig um hnútana að þetta verði sem hraðast því að ég býst við að töluverð eftirspurn sé eftir prentmáli nákvæmlega á þessu formi. Allir rithöfundar, og ég þar með talinn, hljóta að fagna því að hreyfing er komin á þetta mál og bendir allt til að svo sé. Ég held því fram náttúrlega að samfélagið græði á þessu hvernig sem á er litið. Þetta er fjárfesting í menningu sem skiptir okkur gríðarlegu máli. Það er auðvitað augljóst að þetta mun auka dreifingu bókmennta. Þá langar mig að leggja áherslu á að bókmenntir eru ekki bara fagurbókmenntir heldur líka bókmenntir almenns eðlis, eins og við gjarnan köllum það, alls konar upplýsingar, fræðirit og hvaðeina og í raun og veru er sú útgáfa stærri að titlum til en fagurbókmenntirnar. Það er augljóst að íslenskan eflist sem slík við þetta og svo það sem menn hafa minnst á hér að rithöfundar fá nýjan spón í sinn ask sem er kannski ekki aðalatriðið heldur gjörðin sjálf.

Ég hef velt vöngum yfir þessu með markaðsvöruna. Ég á marga tugi bóka útgefinna sem rithöfundur, þannig að ég get alveg séð fyrir mér hvenær bók hættir að vera markaðsvara. Þess vegna set ég spurningarmerki við árið 2000, hvort við mættum ekki færa þetta nær í tíma, einfaldlega vegna þess að fimm, 10, 15 og jafnvel 20 ára bækur seljast í mjög litlu magni og það að viðkomandi bók sé til á stafrænu formi mun vafalítið ekki hafa áhrif á þá sölu því að hún er ákaflega treg. Ég set það fram í fullri alvöru að við horfum okkur nær en til ársins 2000. Það er alltaf spurning um hvernig menn skilgreina markaðsvörur og hvort 30 ára gamlar bækur eða 15 ára gamlar bækur séu það raunverulega.

Ég ætla að hrósa hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir frumkvæði hans að hafa riðið á vaðið með allt þetta og bind miklar vonir við skýrsluna og ekki hvað síst áhuga hæstv. menntamálaráðherra á að leiða þetta mál til lykta þannig að við mörg hér getum farið að hlakka til að hafa aðgengi að ótal bókun sem erfitt er að ná í eða ómögulegt jafnvel, og að við sjáum fram á betri tíð. Enn og aftur þakka ég fyrir frumkvæðið.