150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

leiga skráningarskyldra ökutækja.

386. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hluta hv. atvinnuveganefndar með frávísunartillögu um breytingu á lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja. Með frumvarpinu er lagt til að ökutækjaleigum verði óheimilt að breyta kílómetrastöðu akstursmælis skráningarskylds ökutækis og að Samgöngustofu verði heimilt að sekta ökutækjaleigur vegna slíkra brota.

Herra forseti. Minni hlutinn tekur undir ábendingar þess efnis að niðurfærsla kílómetrastöðu einskorðist ekki við ökutæki í eigu ökutækjaleiga. Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar er bent á að viðurlög sem beinast einvörðungu að ökutækjaleigum leysi aðeins lítinn hluta vandans og að liggja þurfi skýr viðurlög við niðurfærslu kílómetrastöðu almennt. Minni hlutinn telur að skoða þurfi málið í mun víðara samhengi, enda varðar háttsemin fjárhagslega hagsmuni og umferðaröryggi hvort sem um ökutækjaleigur eða önnur viðskipti með bifreiðar er að ræða.

Þá bendir minni hlutinn á að með frumvarpinu er einungis gert ráð fyrir því að sekt geti numið allt að 2 millj. kr. fyrir hverja ákvörðun Samgöngustofu en ekki er ljóst af frumvarpinu hvort gert sé ráð fyrir því að sérstök ákvörðun verði tekin um hvert og eitt ökutæki eða hvort hver ákvörðun geti beinst að fleiri ökutækjum. Í minnisblaði sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sendi nefndinni kemur þó fram að hámarkið miðist ekki við hvert brot heldur hverja ákvörðun, sekt nemur því í engum tilvikum hærri fjárhæð en 2 millj. kr. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að sú aðgerð að breyta akstursmæli ökutækis væri fremur einföld í framkvæmd. Gæti því ökutækjaleiga breytt akstursmæli fjölmargra ökutækja á tiltölulega skömmum tíma. Það er því álit minni hlutans að það hámark sekta sem lagt er til í frumvarpinu dugi skammt, enda getur ávinningur vegna slíkra brota numið umtalsvert hærri fjárhæð.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að sektarheimild vegna brotanna sé skilvirkari en ákvæði um niðurfellingu starfsleyfis, enda sé skrifleg viðvörun og frestur til úrbóta nauðsynlegur undanfari niðurfellingar en beita megi sektum fyrirvaralaust. Þá er einnig rakið að niðurfelling starfsleyfis kunni að vera of víðtæk skerðing á atvinnufrelsi og eignarrétti viðkomandi rekstraraðila. Minni hlutinn bendir þó á, líkt og reynslan sýnir, að um getur verið að ræða stórfelld brot þar sem akstursmælar fjölda ökutækja hafa verið færðir niður og seldir grandlausum kaupendum. Að mati minni hlutans er niðurfelling starfsleyfis markvissara úrræði og ekki umfram það sem eðlilegt getur talist þegar brot eru stórfelld. Í því sambandi bendir minni hlutinn á að brotin eru framin í þeim ásetningi að hagnast fjárhagslega á kostnað fjárhagslegra hagsmuna og öryggis neytenda.

Við umfjöllun nefndarinnar var einnig bent á að það væri eðlilegt út frá hagsmunum kaupenda notaðra bifreiða að vera upplýstir um hvaða ökutækjaleigur gerast sekar um slík brot svo að þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort þeir eigi í viðskiptum við slíkar leigur.

Minni hlutinn tekur að nokkru leyti undir þá viðleitni sem birtist í frumvarpinu, en telur, með hliðsjón af framangreindu, gengið of skammt í ljósi alvarleika háttseminnar. Leggur minni hlutinn því til að málinu verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar þar sem unnið verði að því í víðtækara samráði. Í einu orði sagt, herra forseti: Vinna málið betur.

Undir þetta álit rita sá sem hér stendur, Ólafur Ísleifsson, og hv. þm. Sigurður Páll Jónsson.