150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar.

262. mál
[18:02]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langaði að nýta tækifærið og koma hér upp við þessa fyrri umræðu um þingsályktunartillögu um hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar, þar sem ég er einn af meðflutningsmönnunum. Skógarstrandarvegur er einn af fáum stofnvegum landsins þar sem enn er óbundið slitlag, lélegur malarvegur, svo að vægt sé til orða tekið, er þarna á, ef ég man rétt, 57 km kafla og þróunin á þessu svæði, byggðin meðfram Skógarstrandarvegi og aðliggjandi svæði, ber öll merki þess að þarna hafi hlutunum verið leyft að drabbast niður um langa hríð. Ef horft er til samskipta og flæðis milli Snæfellsness og Dala á fyrri stigum voru þau öll miklum mun meiri en verið hefur undanfarna áratugi og það helgast af því að samgöngur hafa verið jafn brogaðar og raunin er á Skógarstrandarvegi. Ef við horfum síðan í hina áttina, ef við höfum Stykkishólm sem miðpunkt, á samskiptin úti á Nesi, þar sem samgöngurnar eru forsvaranlegar og góðar, eru samskipti þar öll önnur en þau sem í dag eru milli Dala og Snæfellsness. Sérstaklega með það í huga að þarna er einn af sárafáum stofnvegum landsins sem enn er ekki uppbyggður og ekki með bundnu slitlagi er það ekki bara réttlætanlegt heldur nauðsynlegt að Alþingi reyni að ná utan um þetta mál og setja í þannig farveg innan samgönguáætlunar að árangur náist. Með smáfyrirvara held ég að búið sé að skoða töluvert vel svæðið frá Haukadal í Dölum inn að Heydals-vegamótum og þar ætti að vera mögulegt að komast tiltölulega hratt af stað með framkvæmdir ef fjárveitingar koma til. Það er að ég held meiri vinna eftir frá Heydals-vegamótum og áfram inn fyrir Álftafjörð og yfir í Helgafellssveitina. En það er verkefni sem þarf auðvitað að vinna samhliða því að menn komist af stað á hinum helmingi vegarins, ef svo má segja, þeim megin sem liggur Dalamegin. Ég held að það sé nauðsynlegt að ýta hressilega við þessu máli.

Eins og hv. þm. Sigurður Páll Jónsson kom inn á hér áðan var endurskoðuð samgönguáætlun lögð fram af hæstv. samgönguráðherra í fyrstu viku desember sem er eftir að þessi þingsályktunartillaga var lögð fram. Tölur í greinargerð taka því mið af áætlun hæstv. samgönguráðherra eins og hún var lögð fram fyrir rúmu ári, og þar blasir við að verkefni og vinna við Skógarstrandarveg er töluvert langt inn í framtíðina. Það er þannig að í þeim áætlunum, bæði 5 ára og 15 ára samgönguáætlun, sem hæstv. samgönguráðherra lagði fram í fyrstu viku desember, er staðan sú að engar fjárveitingar eru áætlaðar í Skógarstrandarveg á fyrsta tímabilinu, sem nær yfir árin 2002–2024, en síðan koma inn fjárveitingar á öðru tímabili, á árunum 2025–2029, eins og áætlunin liggur fyrir, en meginþungi er á þriðja tímabili og þar eftir. Svo að það sé sett í samhengi þá upplifa auðvitað margir að þriðja tímabil samgönguáætlunar sé svona dálítið úti í vindinum og þegar meginþungi hvað varðar fjárveitingar er settur á þriðja tímabil þá viti ráðherra hverju sinni að hann verður varla í embætti til að klára það verkefni. Ég held að við þurfum að finna leiðir, og það þarf að eiga sér stað í vinnu við samgönguáætlun, til að auka verulega í þær fjárveitingar sem verða til ráðstöfunar hvað nýframkvæmdir varðar að nokkru marki á þeim nótum sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar lagði til við afgreiðslu áætlunarinnar sem lögð var fram fyrir rúmu ári, og það er sú vinna sem er svo sem í gangi í nefndinni núna. Ég held að það sé ekki í boði að menn séu að horfa til þess að klára þennan vegkafla einhvern tímann í námunda við árið 2040. Það eru allt of mörg ár til þess að hægt sé að horfa til þess að forsvaranlegt sé að geyma að tengja Snæfellsnes og Dali til þess tíma. Það er ekki bara þannig að vegur skili áhrifum heldur stefnir í lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga ef horft er til frumvarps hæstv. samgönguráðherra í þeim efnum. Valkostirnir sem horfa við svæðunum Dalamegin og áfram yfir á Strandir í þessum efnum — það þarf að hafa þá sem fjölbreyttasta. Ég segi fyrir mig að ég vil gjarnan sjá þessa lögþvingun falla hér í meðförum þingsins, og vona að það verði niðurstaðan, á grundvelli þess frumvarps sem samgönguráðherra hefur nú lagt fram í svokallaða samráðsgátt stjórnvalda. Lagafrumvarpið sem snýr að lögþvinguninni er ekki komið til þingsins. En ég held að það að tengja Dalasvæðið við Snæfellsnesið muni ýta undir þróun ferðaþjónustunnar á báðum svæðum. Það mun auka flæði ferðamanna af Snæfellsnesinu yfir í Dali og síðan áfram yfir á sunnanverða Vestfirði eða yfir á Strandir. Og þetta er hluti af því sem við verðum að hafa í huga nú þegar það á að vera öllum ljóst að það skiptir alltaf meira og meira máli að dreifa þeim mikla fjölda ferðamanna sem hingað kemur til að skoða okkar fallega land sem mest út um fjarsvæðin. Álagið er meira og minna allt hér í tiltölulega stuttum akstursradíus frá höfuðborgarsvæðinu og yfir á Suðurlandið þannig að þarna eru óendanleg tækifæri til að leyfa ferðamönnum að njóta okkar fallega lands í okkar fallega Norðvesturkjördæmi.