150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

kolefnismerking á kjötvörur og garðyrkjuafurðir til manneldis.

265. mál
[18:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé enn þá meiri tækifæri í íslenskum landbúnaði í framtíðarumhverfi kjötræktar, ef ég má minnast aðeins á það. En það er tvennt annað sem mig langar að spyrja hv. flutningsmann um. Annars vegar fjallaði hann um merkingarkerfi fyrir matvörur og ég velti fyrir mér hvort það væri hægt að samtvinna það við endurvinnslu því að matvörurnar eru yfirleitt settar í einhvers konar umbúðir sem eru líka með ákveðið kolefnisspor og endurvinnsluspor, þ.e. það væri merkingarkerfi fyrir kolefnisspor og endurvinnslu af því að það er oft ekkert algerlega augljóst hvernig á að endurvinna þær umbúðir sem fylgja t.d. með matvöru.

Hitt er að flutningsmaður lagði til að málið færi til hv. atvinnuveganefndar en síðast þegar það var lagt fram fór það til umhverfis- og samgöngunefndar og ef mig misminnir ekki þá komu meira að segja gestir og það voru mjög áhugaverðar umsagnir sem komu þar fram. Mig minnir nokkuð vel að ég hafi hlustað á þær, ég segi þetta eftir minni en ég er nokkuð viss um að málið hafi farið þangað. Ég velti fyrir mér hvort málið ætti ekki heima í umhverfis- og samgöngunefnd.