150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

kolefnismerking á kjötvörur og garðyrkjuafurðir til manneldis.

265. mál
[18:48]
Horfa

Flm. (Þorgrímur Sigmundsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir spurninguna. Í tillögunni stendur orðrétt:

„Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir því að teknar verði upp upprunamerkingar á kjötvörur með skýrari hætti en nú er, þar sem m.a. komi fram upplýsingar um kolefnisspor vegna flutnings …“

Svarið við spurningunni er því: Það er ekki eingöngu lagt til.

Hitt sem þingmaðurinn spyr um, hvers vegna ekki að sækja fleiri upplýsingar og hvort ekki sé skynsamlegt að gera það: Jú, ég tel skynsamlegt að gera það þó að þessi þingsályktunartillaga nái ekki svo langt. Ég held að málið í heild sinni muni fá hraðari framgang ef það er tekið í viðráðanlegri skrefum. Og ég óttast ekkert, svo að það komi bara fram hér í þessum ræðustóli vegna umræðu og orðaskipta okkar Björns Levís Gunnarssonar áðan, í landi fullu af hreinni orku til langrar framtíðar litið að það muni ekki líka verða hagstæður samanburður fyrir íslenskan landbúnað þegar orkuskiptin hafa náð fram að ganga í meira en bara rafmagnsbílum og rafhjólum og öðru slíku sem kannski hefur nú náð mestu flugi á höfuðborgarsvæðinu.