150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

kolefnismerking á kjötvörur og garðyrkjuafurðir til manneldis.

265. mál
[18:59]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langaði til að koma inn í umræðu um þetta mál um kolefnismerkingu á kjötvörur og garðyrkjuafurðir til manneldis. Mér finnst þetta gott mál. Við leit núna, þegar ég var að fletta upp hvað væri búið að skrifa og gera í þessum málum, datt ég inn á frétt á RÚV um Climathon, þ.e. loftslagsmaraþon, sem var haldið árið 2018 í 110 borgum víðs vegar um heiminn og hér í Reykjavík. Þar var þríþætt áskorun þar sem því var velt upp hvernig ferðaþjónustan gæti orðið vistvænni og sjálfbærari, hvernig meðferð og nýting matvæla í Reykjavík gæti orðið sjálfbærari og svo endurvinnsla og endurnýting. Þetta var haldið í höfuðstöðvum Matís. Þarna var hópur sem fékk verðlaun en hugmynd hans gekk út á að kynna fyrir neytandanum kolefnisspor vörunnar strax í hillunni í versluninni. Það er kannski svolítið það sem þetta mál gengur út á, að þegar við kaupum eitthvað þá sjáum við innihald vörunnar, uppruna hennar og líka m.a. kolefnisspor.

Ég hef ekki frétt af því neitt meira hvernig þetta verkefni hefur þróast en þau voru með hugmyndir um að búa til algrím og það kæmi fram á kvittun næst verðinu hvert kolefnissporið væri. Mér fannst þetta áhugavert, þau gerðu ráð fyrir því að koma þessu kerfi í notkun sem allra fyrst eða alla vega á næstu mánuðum. Í ljósi þessarar umræðu mun ég koma til með að kíkja eftir því hvað hefur orðið um þetta skemmtilega verkefni.

Ég ætla svo sem ekki að tala mikið í þessu máli en ég tek undir það að við þurfum að vera sjálfbær í matvælaframleiðslu, alveg sama hvað. Sannarlega getum við staðið frammi fyrir því að landið okkar lokast af og þá getur þetta skipt máli eins og hv. þingmaður hér á undan nefndi. Það sem mér finnst við þurfa að horfa til og félagi minn, Ari Trausti Guðmundsson, hefur skrifað um og er að finna í grein á Kjarnanum og ég tek undir, er að við getum ekki bara horft til fjárhagslegrar hagræðingar þegar við veltum fyrir okkur því sem snýr m.a. að framleiðslu og dreifingu innan lands. Þetta þarf að tvinnast saman við byggðastefnu. Við höfum kannski undanfarin ár verið svolítið mikið í því að þjappa saman fyrirtækjum og gera framleiðslu stóra og mikla í staðinn fyrir einmitt að fjölga og dreifa fyrirtækjum þannig að við getum sem víðast keypt matvöru eftir vigt og í góðum og vistvænum umbúðum. Við erum með minnsta kolefnissporið, eins og hv. framsögumaður nefndi hér, ef við kaupum vöruna sem næst þeim sem framleiðir. Við erum líka væntanlega um leið að minnka matarsóun ef við getum keypt það sem okkur hentar hverju sinni en ekki endilega í stærri umbúðum eða eitthvað sem er búið að flytja landa á milli eða landshorna á milli ef svo ber undir. Þá ýtum við undir þessa sjálfbærni sem við erum gjarnan að vitna til.

Við þekkjum auðvitað öll þessa umhverfisvitund sem hefur sem betur fer vaknað upp hjá landanum og við þurfum að hafa þegar við kaupum okkur til matar. Um leið kemur þessi umræða að vita hvaðan varan kemur. Við vorum hér fyrr í dag að tala um tillögu um upprunamerkingu vara frá Palestínu, sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir er fyrsti flutningsmaður að, og þetta er eitthvað sem ég held að mjög margir séu meðvitaðir um og vilja geta valið, þegar þeir kaupa vöru, hvort sem það er út frá kolefnisspori eða uppruna eða hvað það nú er sem er þar undir. Það má líka í sjálfu sér segja að ef við myndum gera kröfu um upprunamerkingar á vörum og mér dettur t.d. í hug kjúklingur. Það eru margir framleiðendur á Íslandi sem hafa gjarnan mynd á umbúðum af þeim sem framleiða, frá hvaða búi varan kemur o.s.frv. Ég held að þetta skipti allt máli og ég held að það ýti líka undir það hjá framleiðendum að búa til enn þá betri vöru og ekki síður að stunda nýsköpun, búa til eitthvað sem verður þess valdandi að maður velur frekar þá vöru en einhverja aðra, þegar maður veit hvaðan hlutirnir koma. Ég segi það bara fyrir mig að þegar maður kemst á bragðið og finnur einhvern framleiðanda, beint frá býli eða hvað það nú er, sem gerir góða vöru, þá hef ég a.m.k. haft tilhneigingu til að sækja í hana aftur og velja hana frekar en að kaupa eitthvað pakkað úti í búð þar sem eru oft bara lágmarksupplýsingar. Það er alls ekki alltaf þannig að varan sé eins vel merkt og maður myndi vilja. Okkar framleiðendur í kjötframleiðslu t.d. eða fiskframleiðslu merkja sannarlega vörurnar sínar ágætlega en ég held að það gæti verið betra. Einn félagi minn hefur nú hvatt til þess að verðið verði líka brotið niður mjög ítarlega, þó að ég sjái það ekki alveg fyrir mér í framkvæmd, hversu mikill hluti verðsins er frá heildsala, af því það er nú gjarnan talað um að bændur fái lítið fyrir sína vöru, milliliðurinn sé að leggja á, hvort sem það er heildsala eða verslun, og síðan hvað fari til ríkisins. Það væri áhugavert að sjá þessa hluti á vörunni.

Verið er að smíða matvælastefnu sem er í yfirlestri núna, drögin, stefnan er klár í sjálfu sér nema hún er í yfirlestri. Ég vonast til að við sjáum hana fljótlega af því að við þurfum að velta þessu fyrir okkur, t.d. sjálfbærniviðmiðum sem við tölum svo gjarnan um. Á að taka tillit til ferlisins frá upphafi til enda? Erum við að tala um frá frumframleiðslu og alveg til neytanda? Hvað meinum við með sjálfbærni vöru? Hvernig viljum við sjá þessa stefnu? Þetta er eitt af því sem við þurfum að velta upp. Eða hvort við viljum bara það sem er kannski verið að velta fyrir sér í þessari tillögu þó að það hafi komið fram í máli hv. framsögumanns að áherslan er á kolefnissporið en það er sannarlega verið að tala um aðra hluti líka. En eins og ég sagði áðan finnst mér sjálfri að þegar við hugsum um þetta og þær mælieiningar sem við notum þá eigi ekki bara að horfa á það fjárhagslega, hvorki fyrir neytandann né framleiðandann, heldur eigum við að horfa á vistspor. Framtíðin eða beinlínis nútíðin segir að við þurfum að horfa á vistspor. Loftslagsmálin eru þess eðlis að við getum ekki leyft okkur að láta þau vera í seinni sætum. Við þurfum að taka þau og setja þau fremst. En af því að við getum ekki framleitt allt og við viljum hafa fjölbreytni í vörum og flytjum þar af leiðandi alltaf eitthvað inn, ég sé það nú ekki verða öðruvísi — ef við horfum til okkar framleiðslu og hvenær við getum bætt við og aukið og gert betur með tilliti til þessara hluta — þá getum við hagað innflutningi með öðrum hætti, árstíðabundnum t.d., þegar um langan veg er að fara, hvort sem það er frá suðurhvelinu eða hvað það nú er. Við séum ekki endilega að flytja inn vörur á þeim árstíma sem við ættum að geta framleitt hérna heima en meira af.

Auðvitað vill neytandinn kaupa góða vöru en hann vill líka hafa sanngjarnt verð og þá þurfum við að horfa til þessa og ég myndi vilja sjá vistspor vörunnar í búðinni og við tökum mið af þeirri loftslagsvá sem við stöndum frammi fyrir en ekki bara verðinu. Við vitum það alveg að samkeppnin ein og sér tryggir ekki hvort vörur séu góðar, hvort þær séu sjálfbærar og vistvænar eða hvort kolefnissporið sé minna eða meira. Það eru aðrir hlutir sem þar eru undir, ekki síst í ljósi hækkandi hitastigs og þeirrar loftslagsvár sem við stöndum frammi fyrir.

Mér finnst hugsunin í þessu máli góð og ég vona að við berum gæfu til, hvort sem þetta mál verður samþykkt eða ekki, að feta þessa leið í merkingu matvæla.