150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

samkeppnisúttekt á löggjöf og regluverki.

267. mál
[19:15]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir framsöguna. Í texta þingsályktunartillögunnar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að láta vinna heildstæða úttekt á löggjöf og regluverki hér á landi með hliðsjón af áhrifum á virka samkeppni á markaði.“

Þetta hljómar alveg ágætlega en við í Miðflokknum höfum ýtt úr vör verkefni innan húss hjá okkur sem við höfum fengið mikil viðbrögð við sem við höfum kallað „Báknið burt“. Úttektin á ferðaþjónustunni og byggingarmarkaðnum — ég skildi það þannig, það má vera að það sé misminni hjá mér, að það væri úttekt á regluverkinu til einföldunar þess, það væri ekki sérstakur fókus á samkeppnishlutann per se. Mig langar því að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort það sé samkeppnisatriðið sem þingmaðurinn álíti kjarnaatriðið í þessu eða einföldun regluverksins, sem má þá hengja á hattinn „Báknið burt“, ef svo má segja.

Þingmaðurinn kom inn á það í ræðu sinni, flækjustig í tæknilegum útfærslum og fleira slíkt, en mig langar til að heyra það frá þingmanninum hvort hann metur samkeppnisvinkilinn mikilvægari í þessu. Þá má segja, alla vega horfir það þannig við mér, að það þrengi kannski aðeins þá markaði sem þetta mál tekur til eða hvort þetta sé svona allsherjarleið að því að einfalda regluverkið og minnka báknið, eins og við köllum það.