150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

samkeppnisúttekt á löggjöf og regluverki.

267. mál
[19:17]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Stutta svarið er: Ég legg þetta algerlega að jöfnu, þ.e. „Báknið burt“ og að ryðja burt samkeppnishindrunum, það er bara nákvæmlega sami hluturinn. Það er miklu þægilegra fyrir fyrirtækin sem fyrir eru á markaði að starfa í flóknu regluumhverfi en fyrir ný fyrirtæki sem þekkja ekki inn á leikreglur hins opinbera á viðkomandi sviði. Það er miklu auðveldara fyrir stærri fyrirtæki að takast á við flókið regluverk og mikið bákn, fyrirtæki sem geta haft lögfræðinga á sínum snærum, en fyrir lítil sprotafyrirtæki að komast inn á slíka markaði með ærnum tilkostnaði. Það helst algjörlega í hendur að einfalda regluverkið einföldunarinnar vegna, einmitt til að gera fyrirtækjum og almenningi þægilegra að athafna sig á viðkomandi mörkuðum, og örva um leið samkeppni. Allar rannsóknir á þessu sviði sýna að flókið, tyrfið regluverk gagnast helst stórum fyrirtækjum sem liggja fyrir á fleti, ef svo má segja, á viðkomandi markaði. Þess vegna hjálpar þetta nýjum fyrirtækjum til að hasla sér völl og örvar samkeppni en dregur um leið úr viðskiptakostnaði og einfaldar þeim fyrirtækjum sem þegar eru starfandi að starfa. Ágætisdæmi er t.d. byggingarmarkaðurinn þar sem við sjáum að helsta tregðan er hversu langan tíma það tekur að fá útgefin byggingarleyfi, að ljúka skipulagsvinnu og annað þess háttar sem er ærinn kostnaður og miklu erfiðara fyrir lítil og kannski oft vanfjármögnuð fyrirtæki en stöndug og fjársterk fyrirtæki sem fyrir eru þannig að þetta helst algjörlega í hendur.