150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

verndun og varðveisla skipa og báta.

277. mál
[19:20]
Horfa

Flm. (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um verndun og varðveislu skipa og báta. Auk mín eru flutningsmenn á málinu hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Elvar Eyvindsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þorsteinn Sæmundsson, Ásmundur Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Þingsályktunartillagan hljóðar á þennan veg:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa starfshóp sem geri úttekt á því hvernig staðið er að verndun og varðveislu skipa og báta og geri tillögur að úrbótum. Starfshópurinn taki saman m.a. yfirlit yfir skip og báta sem hafa menningarlegt og atvinnusögulegt gildi, óháð aldri, og endurskoði aldursmörk skipa og báta samkvæmt lögum um menningarminjar, nr. 80/2012. Í starfshópnum eigi sæti fulltrúar frá félagasamtökum er sinna verndun skipa og báta, fulltrúar frá greinum sjávarútvegsins og fulltrúar héraðssafna auk fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Þjóðminjasafns Íslands og Minjastofnunar Íslands. Starfshópnum verði jafnframt falið að finna fjárstreymis- eða fjáröflunarleiðir til verkefnisins og móti reglur um meðhöndlun fjármagnsins. Starfshópurinn skili úttekt sinni og tillögum til mennta- og menningarmálaráðherra innan árs frá samþykkt tillögu þessarar. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins“ að því loknu.

Í greinargerð segir að hinn 9. maí árið 2000 hafi Alþingi samþykkt þingsályktun nr. 18/125, um varðveislu báta og skipa. Í þeirri þingsályktun er ríkisstjórninni falið að undirbúa tillögur um hvernig skuli staðið að varðveislu gamalla skipa og báta sem eru mikilsverðar minjar um atvinnu- og byggðasögu sem og að móta reglur um fjármögnun og skilgreina varðveislugildi báta og skipa. Menntamálaráðuneytinu var falin framkvæmd ályktunarinnar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Í umræðum við fyrirspurn þáverandi hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um undirbúning tillagna um hvernig staðið skuli að varðveislu gamalla skipa og báta sem hafa menningarsögulegt gildi, samanber ályktun Alþingis frá 9. maí 2000, kom fram að skipuð hefði verið nefnd sem lagði fram tillögur sínar í minnisblaði árið 2002. Þá kom einnig fram að tillögurnar hefðu verið til sérstakrar skoðunar ráðherra og að fram ætti að fara endurskoðun á þjóðminjalögum, nr. 107/2001.

Lög um menningarminjar, nr. 80/2012, leystu m.a. af hólmi þjóðminjalögin. Megintilgangur laganna er að stuðla að verndun menningarminja og auka skilvirkni minjavörslu í landinu. Samkvæmt 3. gr. laganna teljast skip og bátar til forngripa, þ.e. lausra minja, og eru aldursmörk skipa og báta sem teljast til forngripa sett við ártalið 1950. Þá teljast fornleifar hvers kyns mannvistarleifar á landi, í jörðu, jökli, sjó eða vatni sem menn hafa gert eða mannaverk eru á og eru 100 ára og eldri, svo sem bátalægi, samanber d-lið 3. mgr. 3. gr. laganna, eða skipsflök, sbr. i-lið sama ákvæðis. Til byggingararfs teljast hins vegar hús og önnur mannvirki og einstakir hlutar þeirra sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, samanber 4. gr. laganna.

Hérlendis hafa verið smíðuð fjölmörg skip og bátar. Mikilvægt er að viðhalda þekkingu á smíði gamalla báta og skipa. Enn fremur hefur það menntunargildi. Þannig er hægt að nýta gömul skip við fræðslu ungmenna og nýta uppgerð skip til kennslu. Þá hafa fjölmörg samtök og áhugafélög tekið að sér að viðhalda skipum og bátum og má telja að án aðstoðar þeirra hefði skipum og bátum, sem í eru fólgin menningarverðmæti og arfleifð handverks, verið eytt. Að mati flutningsmanna er mikilvægt að veita þessum samtökum stuðning.

Tilgangur tillögu þessarar er þess vegna að gera úttekt á því hvernig staðið hefur verið að verndun og varðveislu skipa og báta, m.a. með hliðsjón af lögum um menningarminjar, auk þess að taka saman yfirlit yfir skip og báta sem eru talin hafa menningarlegt og atvinnusögulegt gildi, óháð aldri, í þeim tilgangi að fá heildarmynd af stöðunni. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að starfshópurinn geri tillögur að úrbótum. Mikilvægt er að starfshópurinn hafi til hliðsjónar hvort tilefni sé til að verndun skipa og báta sem hafa varðveislugildi verði sambærileg og verndun byggingararfs. Jafnframt skoði starfshópurinn hvort falla eigi frá því að miða aldursmörk við ártal, samanber 2. mgr. 3. gr. laga um menningarminjar, og þess í stað verði frekar miðað við aldur.

Hæstv. forseti. Þarna er verið að vitna í aldursmörk skipa og báta eins og kom fram í greinargerðinni sem ég las upp úr og að þar hafi verið miðað við ártalið 1950. Vilja sumir meina að á þeim tíma hafi verið um misritun að ræða og að frekar beri að miða við að bátar og skip sem eru 50 ára og eldri fái þennan stimpil en að ekki sé miðað við ártalið 1950.

Svo er annað sem ég myndi vilja láta koma fram, að svona gamlir bátar og skip sem eru gerð upp hafi leyfi til að sigla. Það er þekkt í löndunum í kringum okkur og víðar að skip og bátar sem eru gerð upp fái að sigla, takmarkað að vísu, öryggisatriðin eða það sem kallað er haffærisskírteini hérna heima séu á þeim forsendum sem voru í gildi þegar þau voru og hétu á sínum tíma, að ekki séu gerðar kröfur um allan þann öryggisbúnað sem gerðar eru kröfur um í dag. Það myndi náttúrlega þýða að við værum ekki að tala um siglingar í hafi eða eitthvað slíkt. Þó að það sé til að svona gömul skip hafi siglt á milli landa hafa þau undanþágur frá því hvernig haffæris- eða öryggisatriðin eru útfærð í dag og miðað við þann tíma þegar viðkomandi skip var í notkun.

Það verður að segjast eins og er að í mínum huga og margra annarra hafa skip og bátar ekki fengið þann stuðning frá stjórnvöldum sem til þarf til að sómi sé sýndur menningararfi okkar sem liggur í skipum og bátum. Tilvist okkar á Íslandi er til komin vegna þess að menn og konur komu hér á skipum og bátum á sínum tíma. Þar af leiðandi finnst mér að okkur beri skylda til að halda þessu til haga og sýna því mun meiri virðingu en við höfum gert undanfarin ár og áratugi. Húsum og híbýlum er sýnd mikil virðing og ætla ég ekki að tala það niður, það er mjög virðingarvert. Mér finnst að skip og bátar þurfi ekki síður að fá stuðning frá stjórnvöldum.

Eins hafa oft og tíðum verið teknar rangar ákvarðanir um varðveislu þeirra skipa sem þó hafa verið vernduð og þá sérstaklega tréskipa, þau hafa verið tekin upp á land þar sem þau grotna síðan niður vegna þess að bátar eru smíðaðir til að vera á floti og þeim líður miklu betur á floti en á þurru landi. Þannig vinna t.d. nágrannar okkar og frændur í Færeyjum, Danmörku og Noregi, þeir viðhalda gömlum skipum með því að hafa þau á floti.

Við höfum séð góða uppbyggingu gamalla báta sem hafa getað aflað tekna og þá koma mér í hug hvalaskoðunarbátarnir sem eru margir hverjir gamlir trébátar. Þeim hefur verið mikill sómi sýndur með því að gera þá upp en þeir afla líka tekna og þau fyrirtæki ganga mörg hver ansi vel. Það var líka minnst á það í greinargerðinni áðan að það má kenna ungu fólki sjómennsku á svona gömlum skipum og af því væri líka hægt að hafa einhvers konar tekjur eða a.m.k. tilgang. Þannig mætti lengi telja.

Mig langar að nefna varðskipið Óðin sem var bjargað fyrir nokkrum árum. Það hafði komist til umræðu að selja það skip úr landi, jafnvel í brotajárn, en þá voru stofnuð félagasamtök utan um Óðin sem gátu ekki hugsað sér að þetta merkilega skip, ásamt öllum þeim skipum sem hafa verið fyrir Landhelgisgæsluna, yrði selt úr landi. Þetta félag sem var stofnað utan um það varð til þess að skipinu var bjargað og því sómi sýndur. Það mætti gera miklu betur í þeim málum og þá koma mér einmitt í hug siglingaréttindin eða haffærisskírteinin, að Óðinn gæti siglt á tyllidögum eða í einhverjum erindagjörðum við strendur landsins miðað við þær reglur sem giltu þegar Óðinn var í störfum áður fyrr.

Víða um landið eru félagasamtök sem hafa verið stofnuð í kringum varðveislu gamalla báta og skipa, en þau eiga við ramman reip að draga hvað það varðar að það vantar pening. Ég veit að þau fylgjast vel með hvernig þetta mál muni þróast í þinginu. Ég geri mér bjartar vonir um að þetta mál fái framgang. Það hefur margoft verið reynt en ekki tekist á þann hátt að það fái farsælan stuðning frá hinu opinbera til að sýna þeim virðulegu menningarminjum sem liggja í þessum skipum og bátum þann sóma sem þeim ber.