150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

verndun og varðveisla skipa og báta.

277. mál
[19:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka framsögumanni fyrir þessa fínu ræðu og fyrir að leggja þetta mál fram. Það er brýn ástæða til að halda þessu til haga. Margir undangengnir þingmenn hafa lagt til að varðveislu á skipum og bátum væri meiri sómi sýndur en því miður hefur það ekki alltaf gengið eftir. Ég nefni í því sambandi menn eins og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, fyrrverandi þingmann Jóhann Ársælsson og, eins og hv. þingmaður nefndi, fyrrverandi þingmann Kolbrúnu Halldórsdóttur. Fleiri hafa lagt þessu máli lið í gegnum tíðina en því miður hefur það ekki alltaf verið klárað eins og lagt var upp með. Ég tel það vera mjög mikilvægt að opinberir aðilar í samstarfi við t.d. einkaaðila taki höndum saman um varðveislu og viðhald gamalla skipa og báta og haldi þannig til haga mikilvægum þætti í atvinnusögu okkar landsmanna. Við höfum því miður dregið lappirnar allt of lengi og hætta er á að mörg söguleg skipsfley verði ónýt og heyri sögunni til.

Við heyrðum þær fréttir á síðasta ári að bæjarráð Akraneskaupstaðar óskaði eftir leyfi frá Minjastofnun að fá að farga kútter Sigurfara sem hefur staðið lengi við Byggðasafnið í Görðum á Akranesi í áratugi. Skipið var smíðað 1885 í Englandi og keypt til Íslands upphaflega 1897. Taldi bæjarráð að búið væri að rannsaka það nægjanlega til þess að óhætt væri að farga því en áður en því væri fargað væri hægt að gefa áhugasömum kost á að eignast skipið. Eins og hv. þingmaður nefndi í sinni ræðu er hætta á að skip sem eru geymd uppi á landi verði ónýt, fúni. Þeim er ætlað að vera í sjó, þannig geymast þau best. Nú á dögunum sökk báturinn Blátindur í Vestmannaeyjum sem var uppgerður og kannski að mestu hafður við bryggju til skrauts. Hann sökk í því vonda veðri sem var hér fyrir helgi. Sá bátur var smíðaður í Vestmannaeyjum 1947 og hann sökk í höfninni og ég veit ekki hvað verður um framtíð hans.

Eins og nefnt var líka í ræðu framsögumanns og fyrsta flutningsmanns þessa máls er best þegar hægt er að gera þessa gömlu báta upp og hægt að nýta þá eins og t.d. í hvalaskoðun sem hefur verið gert með góðum árangri fyrir norðan og líka hér fyrir sunnan. Það er hið besta mál.

Mig langar í þessu sambandi að vekja athygli á björgunarskipinu Maríu Júlíu sem liggur nú frekar hnípin við hafnarkantinn í Ísafjarðarhöfn. María Júlía er merkilegt skip sem á sér merka sögu en því miður hefur ekki fengist nægilegt fjármagn til að halda henni við og sýna henni þann sóma sem hennar merkilega saga á skilið og halda þannig til haga okkar menningararfi.

Björgunarskipið María Júlía verður 70 ára á þessu ári og skip og bátar frá því fyrir 1950 teljast til forngripa og njóta friðunar nema annað sé ákveðið hjá Minjastofnun. Á síðustu árum hefur Byggðasafn Vestfjarða verið að berjast við að varðveita skipið og tók við því af safninu að Hnjóti og María Júlía hefur þegið ýmsa styrki frá því að hún kom í fang þessara safna, fyrst að Hnjóti og síðan Byggðasafnsins á Vestfjörðum 2003. Forsaga þess er að þá um sumarið barst eigendum skipsins, Þórsbergi á Tálknafirði, kauptilboð frá Suður-Afríku. Þegar það spurðist út til safnanna var ákveðið að sameinast og freista þess að ganga inn í það kauptilboð með einhverjum ráðum og tryggja að skipið færi ekki úr landi, enda um að ræða skip með mikið og einstakt sögulegt gildi að mati beggja þessara safna. Það tókst með hjálp þingmanna úr kjördæminu á þeim tíma, gagnvart eigendum skipsins, að söfnin fengu opinbera aðstoð til að ganga inn í kauptilboðið, en síðan hefur kannski ekki það fjármagn fylgt því sem hefði þurft að gera og er það mjög miður.

Ég vil nefna í þessu sambandi líka fyrrverandi þingmann, Jóhann Ársælsson, skipasmið á Akranesi og áður þingmann fyrir Vesturland, sem var einn ötulasti baráttumaður fyrir verndun báta á meðan hans naut við á þingi. Hann ásamt fimm öðrum þingmönnum lagði fram frumvarp um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, að hann fengi það viðbótarhlutverk að veita byggðasöfnum og sjóminjasöfnum styrki til að varðveita skip og báta. Sú tillaga var samþykkt með breytingum á Alþingi með 49 samhljóða atkvæðum. En það fór ekki eins og ætlað var, þróunarsjóðurinn var lagður niður og þá datt þetta upp fyrir og ekkert gerðist í þeim efnum. Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, eins og ég nefndi hér áðan, Jón Bjarnason, lagði fram tillögu um að aftur yrði reynt að gera það sem hægt væri til að varðveita þessi skip og lagði fram þingsályktunartillögu þess efnis árið 2012. Hann var einn af flutningsmönnum með Jóhanni Ársælssyni á sínum tíma sem lagði til að það yrði reynt að nýta Þróunarsjóð sjávarútvegsins, sem gekk ekki eftir, því miður.

Það hefur komið fram hjá Sambandi íslenskra sjóminjasafna að hér á landi eru 190 bátar sem falla undir þá skilgreiningu að vera aldursfriðaðir. Styrkir til verndunar báta og skipa eru því miður hverfandi miðað við þörfina á fjárfestingum í varðveislu þeirra og við höfum ekki bátafriðunarsjóð en hann hefur lengi verið áhugamál aðildarfélaga Sambands íslenskra sjóminjasafna. En hver veit hvað gerist nú þegar þetta mál er aftur vakið upp og fullt tilefni til þess. Það hefur komið fram að framlög úr fornminjasjóði frá árinu 2013 til ársins 2019 hafa verið um 13,5 milljónir en á sama tíma hefur húsafriðunarsjóður veitt styrki til verkefna tengdum verndun húsa og kirkna að upphæð 1,4 milljörðum kr., svo það er mikill munur þar á. Ég tel að við verðum að gera betur og sýna atvinnusögu þjóðarinnar þá virðingu sem hún á skilið en án uppbyggingar skipaflotans í gegnum tíðina, úr árabátum, sexæringum, í nútímaskipaflota í dag, jafnt stórum skipum sem minni bátum, værum við ekki stödd eins vel efnahagslega og við erum í dag.

Ég hef vakið athygli á stöðu fyrrum björgunarskipsins Maríu Júlíu í þessu sambandi en hennar sögu má yfirfæra á önnur skip og báta sem hafa menningarlegt og sögulegt gildi og mikilvægt er að sé sýnd tilhlýðileg virðing og fjárveitingar til varðveislu þeirra. Við þurfum virkilega að spýta í lófana. Ég styð heils hugar þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir og er ég einn af flutningsmönnum hennar. Ég vil bara þakka enn og aftur fyrsta flutningsmanni tillögunnar, Sigurði Páli Jónssyni, fyrir forystu hans í þessu máli núna.

Ég tel að það sé hægt að gera miklu betur og mér finnst mjög mikilvægt að það sé horft til þess að nýta báta og skip sem gerð eru upp til þess að vera mögulega með einhvers konar leigu á viðkomandi skipi til fræðslu, menntunar, menningarlegra hluta og fyrir ferðamennsku. Allt það styður það að við getum staðið myndarlega að því að varðveita skip og báta sem eiga sér sögulegt gildi í menningarsögu okkar og atvinnusögu.