150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

sala upprunavottorða.

[10:38]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en ég hafði frekar hugsað mér að líta okkur pínulítið nær og tala um Ísland jafnvel þó að við séum í samskiptum úti í hinum stóra heimi og í alþjóðasamfélaginu. En þá var ég fyrst og síðast að hugsa um okkur hér. Við segjum gjarnan að við séum svo rosalega spes og enginn sé eins og við og ég ætla bara að halda því fram að það sé nákvæmlega þannig, a.m.k. ef marka má — ég bara vísa því og spyr hæstv. ráðherra hvort hún viti um eitthvert annað land sem getur sagt það sem við getum sagt: Við erum 100% með græna orku hér. Við erum 100% hrein og framleiðum 100% græna orku. Veit hæstv. ráðherra um eitthvert annað land sem hún gæti dregið upp að hliðinni á okkur og sagt að væri sambærilegt? Og hvað varðar okkur um það hvernig önnur lönd fara með sína orku? Ég hélt að við værum algerlega sjálfstæð í orkumálum okkar hér og hvernig við færum með okkar mál. Við þyrftum ekkert endilega að vera að gera eins og allir hinir, af því að ég tel að við séum sérstök hvað þetta varðar og þetta gæti frekar bitið okkur í skottið en hitt.