150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

bygging nýrra höfuðstöðva Landsbankans.

[10:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Þrátt fyrir mikla fækkun starfsfólks og gjörbreytt starfsumhverfi í fjármálastarfsemi stendur Landsbankinn í stórframkvæmd á Hafnartorgi og byggir nýjar höfuðstöðvar fyrir milljarða króna á dýrustu lóð landsins. Framkvæmdin er rétt byrjuð og þegar komin 1,8 milljörðum fram úr áætlun, stendur í 12 milljörðum og upphæðin á örugglega eftir að hækka enn frekar. Byggingin á að borga sig á 24 árum og mun þá sennilega enginn fara lengur í banka, allt verður gert í heimabanka. Ég hef áður gagnrýnt þessa taktlausu og óþörfu framkvæmd ríkisbanka og hef áður rætt þetta við hæstv. ráðherra undir þessum lið. Ráðherra reyndi þá að búa til sinn eigin umboðsvanda og fría sig ábyrgð.

Fyrir ellefu mánuðum lagði ég fram skriflega fyrirspurn um málið til hæstv. ráðherra og í vikunni barst loksins svar. Ráðherra vísar sem fyrr á stjórnina og reynir enn að koma sér undan ábyrgð, segist ekkert hafa með málið að gera þó svo að hann haldi á hlutabréfinu og sé eigandi félagsins. Í svari ráðherra kemur fram að þessi stórframkvæmd upp á 12 milljarða af opinberu fé var ekki borin undir eigandann á hluthafafundi. Bankasýsla ríkisins fer með hlut ríkisins í bankanum og samkvæmt lögum getur ráðherrann beint tilmælum til hennar um tiltekin mál eins og hann gerði þegar laun bankastjóra ríkisbankanna voru lækkuð. Bankasýslan sat alla aðalfundi bankans og vissi vel af fyrirhuguðu stórhýsi. Hæstv. ráðherra var því ekkert til fyrirstöðu að beina þeim tilmælum til Bankasýslunnar að láta stjórn bankans falla frá byggingunni.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvers vegna var málið aldrei samþykkt af eiganda bankans og hvers vegna var það ekki borið undir hluthafafund eins og ber að gera samkvæmt eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki?