150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

bygging nýrra höfuðstöðva Landsbankans.

[10:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það voru nú svo margar rangfærslur í þessari ræðu að ég náði ekki að halda tölu á þeim öllum. Í fyrsta lagi, ég held ekki á hlutabréfum. Það er samkvæmt lögum þannig að hlutabréfið er í Bankasýslunni sem fer með hlutabréfið og hefur ákveðið fyrirkomulag við val á stjórnum. Stjórn Landsbankans er sjálfstæð, hún sækir umboð sitt ekki til Bankasýslunnar heldur til aðalfundarins og tekur ekki fyrirmælum frá Bankasýslunni heldur starfar sjálfstætt sem stjórn þessa fyrirtækis á grundvelli laga og reglna sem bankinn sjálfur hefur sett sér.

Í öðru lagi er ég með efasemdir um að það sé rétt hjá hv. þingmanni að bankanum hafi borið að leita samþykkis á aðalfundi. En hitt er síðan annað mál að það kann að vera svo að fjármálaráðherra geti sent ýmiss konar tilmæli til Bankasýslunnar um hitt og þetta, t.d. gerðum við það á sínum tíma, eins og rakið var, að við lögðum áherslu á það við öll ríkisfyrirtæki, ekki bara fjármálafyrirtæki, Bankasýsluna eins og öll önnur fyrirtæki í eigu ríkisins, að menn gættu hófs við launaákvarðanir forstjóra og tækju mið af þeirri stefnumörkun sem myndaðist við kjarasamningagerð.

Hér vill hv. þingmaður ítrekað taka upp viðskiptaákvörðun bankans við mig, en ég er einfaldlega ekki maðurinn sem tók þá ákvörðun. Ég held að þingið vilji heldur ekki að ég geti tekið slíka ákvörðun. Svo getum við rætt um það hvort þetta hafi verið góð ráðstöfun hjá bankanum eða ekki. Ég hef mínar efasemdir um að nauðsynlegt sé að byggja höfuðstöðvar á þessum stað. Ég tek það hins vegar ekki af stjórnendum bankans að þeir hafa sýnt fram á að þeir muni spara mikið í rekstri og svo er hitt (Forseti hringir.) að þeir munu eiga húsið. Þeir munu eiga húsið, það færist til eignar í reikningi Landsbankans sem getur þá selt það í framtíðinni eftir atvikum (Forseti hringir.) ef það nýtist ekki í þeim tilgangi sem bankinn starfar.