150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

bygging nýrra höfuðstöðva Landsbankans.

[10:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Spuninn um umboðsvanda ráðherra heldur áfram. Ég hvet hæstv. ráðherra til að lesa lögin um Bankasýsluna. Á aðalfundum Landsbankans 2017, 2018 og 2019 er fjallað um nýjar höfuðstöðvar. Á þessum fundum sátu fulltrúi ráðherra og Bankasýslunnar og gerðu þeir aldrei athugasemdir við þessa glórulausu framkvæmd. Þetta er algjört aðgerðaleysi af hálfu ríkisins. Næg voru tækifærin fyrir eigandann að tjá sig um þetta gæluverkefni bankastjórnar. Bankasýslan hafði afskipti af arðgreiðslum í Arion banka og hótaði lögbanni en sér hins vegar ekkert tilefni til að hafa afskipti af útgjöldum Landsbankans upp á 12 milljarða í höfuðstöðvar. Í samþykktum bankans segir að höfuðstöðvar hans séu í Austurstræti. Þessu er ekki hægt að breyta nema á hluthafafundi. Stjórn bankans telur sig hafa heimild til að byggja nýjar höfuðstöðvar án samþykkis hluthafafundar. Stjórnin hefur því brotið samþykktir bankans.

Hæstv. ráðherra: Er stjórn bankans eftirlitslaus? (Forseti hringir.) Sem gæslumaður ríkissjóðs hefur hæstv. ráðherra brugðist í þessu máli. Nær væri að þessir 12 milljarðar færu í fjársvelt heilbrigðiskerfi.