150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

bygging nýrra höfuðstöðva Landsbankans.

[10:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þessi síðustu ummæli eru dæmi um vitleysuna sem stundum heyrist hér í þinginu um að það sem átti að fara í fjárfestingu ætti frekar að fara í rekstur, sem er sem sagt á hverju ári um alla framtíð. 12 milljarðar í rekstur á ári er allt annað en 12 milljarða fjárfesting. En hv. þingmaður vill ekki fella sig við það að hér er sérstök stofnun sem starfar lögum samkvæmt sem fer með hlutabréfið og á þessi samskipti við þau fyrirtæki sem undir stofnunina heyra.

Ég lagði á sínum tíma fram frumvarp í þinginu um að við létum líftíma þessarar stofnunar líða undir lok eins og upphaflega var gert ráð fyrir, þ.e. lögin kváðu á um að stofnunin skyldi lifa í fimm ár. Þá þótti mönnum það afar slæm ráðstöfun, sérstaklega með vísan til þess að þá færðust málefni þessarar stofnunar nær ráðuneytinu. Það var það sem þingið var svo ósátt við. En svo vilja menn halda áfram að halda ráðherranum ábyrgum fyrir öllu því sem gerist í þessari sjálfstæðu stofnun sem síðan hefur aðkomu að skipan sjálfstæðrar stjórnar.