150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

efnahagsmál.

[11:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það er ákveðin áskorun í þessu. Ég held að við getum ekki boðað átak í fjárfestingum sem algerlega og í einu og öllu er háð því að við seljum á einhverjum tilteknum tíma. En ef við hins vegar förum þá leið að lýsa því yfir að við séum komin af stað í söluferli með bankann er ljóst að á komandi árum mun söluandvirðið skila sér til ríkisins og þannig getum við brúað bilið með því að fjármagna það sem þarf að hrinda í framkvæmd áður en að salan raungerist. Ég held að það verði í sjálfu sér ekki risastórt vandamál.

Ég ætla líka að nefna það hér að við höfum búið okkur undir þetta á undanförnum árum með því að greiða upp skuldir ríkissjóðs í stórum stíl og tryggja þannig ríkissjóði aðgang að mun ódýrara fjármagni. Ég hef oft verið gagnrýndur fyrir það í þessum sal að við værum jafnvel að skila of miklum afgangi á ríkisfjármálunum á undanförnum árum, og hversu oft hefur maður ekki farið í viðtalsþættina og fengið gagnrýni fyrir það á meðan verkefni bíða. En nú sjá menn, þegar kólnar aðeins í hagkerfinu, hversu miklu það skiptir að skila afgangi þegar vel gengur til að geta tekist á við stöðuna þegar hægir á.