150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

stuðningur við rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins.

[11:08]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. nýsköpunarráðherra fyrir að taka sér tíma til að ræða þetta mikilvæga mál. Þegar ég óskaði eftir þessari sérstöku umræðu í október sl. var nýbirt úttekt Daða Más Kristóferssonar, prófessors við Háskóla Íslands, um framlög til rannsókna og nýsköpunar eftir landshlutum 2014–2018. Niðurstöður voru nokkuð sláandi hvað varðar dreifingu þessara framlaga en staðreyndin er að langstærsti hluti þessara styrkja fer á höfuðborgarsvæðið. Ég vildi því spyrja hæstv. ráðherra eftirfarandi spurninga: Hverjar telur ráðherra að séu helstu skýringar á því að þessi munur sé á árangri milli landshluta? Hvernig sér ráðherrann fyrir sér að auka stuðning við rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins? Er það stefna ráðherra að fjölga opinberum störfum sem tilheyra málaflokki hennar utan höfuðborgarsvæðisins?

Það er að mínu mati fátt mikilvægara en að styðja við fjölbreytta atvinnustarfsemi um allt land, ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins, í ljósi þess að þar eru egg atvinnulífsins allt of oft öll í sömu körfu. Miðað við niðurstöður Daða Más er ljóst að okkur tekst ekki nægilega vel upp, a.m.k. virðast nýsköpunarfyrirtæki og rannsóknarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins ekki ná að nýta sér það styrkjakerfi sem byggt hefur verið upp fyrir landið. Ástæðurnar fyrir því eru eflaust margar. Í einhverjum tilfellum skila upplýsingar um sjóðina sér e.t.v. ekki til þeirra sem á þyrftu að halda og í öðrum tilfellum vantar ef til vill þekkingarlega grunninn og þekkingarlega stuðninginn, aðgengi að leiðbeiningum við umsóknir og stuðning við uppbyggingu fyrirtækja.

Nýsköpunarmiðstöð hefur það hlutverk að styðja við nýsköpun um allt land en því miður er staðreyndin sú að þó að starfsmenn stofnunarinnar séu allir af vilja gerðir hafa þeir ekki tök á því að sinna öllu landinu eins og er. Er raunar sorglegt að sjá, eins og kom fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn minni nýlega, að starfsmönnum stofnunarinnar utan höfuðborgarsvæðisins hefur fækkað á undanförnum árum en síðustu ár hefur til að mynda engin starfsstöð Nýsköpunarmiðstöðvar verið á Austurlandi sem Austfirðingar hafa tilfinnanlega fundið fyrir. Ég vil því nýta tækifærið hér í þessari umræðu og skora á hæstv. ráðherra að bæta úr þeirri stöðu.

Nýsköpun byggir á hugmyndum en hún byggir ekki síður á þrautseigju og það er einmitt eitt af því sem Nýsköpunarmiðstöð styður við og þarf að styðja við, að veita hvatningu og stuðning og ráðgjöf um hvernig frumkvöðlar koma hugmyndum sínum áfram. Annað sem er mikilvægt að hafa sem víðast er aðgengi að ódýru húsnæði fyrir frumkvöðla sem og í einhverjum tilfellum aðgengi að sérhæfðara húsnæði eins og votrýmum og viðurkenndum eldhúsum. Við höfum séð það í klasasetrunum eins og í Íslenska sjávarklasanum og Íslenska ferðaklasanum, sem og í Þróunarsetrinu á Ísafirði, hve mikilvægt það er fyrir frumkvöðla að vera í skapandi umhverfi með öðrum sem eru að vinna að ýmsum verkefnum og eru jafnvel sérfræðingar á sínu sviði. Það gerist svo margt þegar verið er að drekka kaffibolla á kaffistofunni.

Þá er það að lokum fjármagnið. Margir kunna að velta því fyrir sér af hverju ríkið ætti að vera að styðja við nýsköpun en staðreyndin er að aðkoma ríkisins skiptir máli. Hagfræðingurinn Mariana Mazzucato hefur t.d. sýnt fram á að margar af okkar lykiluppfinningum, svo sem allir íhlutir í snjallsíma, eru þróaðar í verkefnum á vegum hins opinbera. Hluti af vanda nýsköpunarfyrirtækja, ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins, er einmitt skortur á þolinmóðu fjármagni og reyndar skortur á fjármagni yfir höfuð. En staðreyndin er sú að fjármálastofnanir neita að taka þátt í metnaðarfullum verkefnum utan höfuðborgarsvæðisins á þeim forsendum að þau séu of áhættusöm og einfaldlega virðast þau sérstaklega hafa áhyggjur af staðsetningu verkefna. Í þessu samhengi má til gamans geta þess að leitarvélar Google byggðu á styrk frá vísindasjóði Bandaríkjanna og Tesla fór ekki af stað fyrr en fyrirtækið fékk 465 milljón dollara lán frá Orkustofnun Bandaríkjanna.

Í gær stóð til að úthluta úr uppbyggingarsjóði Austurlands við hátíðlega athöfn. Athöfninni var frestað, ótrúlegt en satt, vegna veðurs. Það var áhugavert að skoða þá úthlutun í ljósi þess hversu lítið er sótt í nýsköpunar- og rannsóknarsjóði frá Austurlandi. Í ár var nefnilega metfjöldi umsókna, 71 í menningarverkefni og 55 í nýsköpun og atvinnuþróun en aðeins 60 verkefni hlutu styrkúthlutun. Þessi umsóknarfjöldi sýnir það skýrt að það er enginn skortur á spennandi hugmyndum og verkefnum fyrir austan eða úti á landi en líklega eru uppbyggingarsjóðirnir aðgengilegri fyrir fyrirtæki og verkefni sem eru að stíga sín fyrstu skref. En þessir styrkir geta verið gríðarlega mikilvægir fyrir þessi fyrirtæki og má nefna sem gott dæmi um slíkt fyrirtæki Kerecis á Ísafirði sem hóf starfsemi sína eftir að hafa unnið nýsköpunarverðlaun Vestfjarða.

Ég held því að það væri mjög mikilvægur hluti (Forseti hringir.) að efla stuðning við nýsköpun úti á landi, að stíga ákveðin skref í áttina að því að styrkja uppbyggingarsjóði landshlutanna. Væri gaman að heyra hvort hæstv. ráðherra sé ekki sammála mér og sé tilbúinn í það verkefni með okkur.