150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

stuðningur við rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins.

[11:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu og ágætisræðu hjá hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur. Það er mikill aðstöðumunur þegar kemur að stofnunum og háskólaumhverfi annars vegar og almennum frumkvöðlum hins vegar varðandi umsóknir í samkeppnissjóði. Stofnun sem er borin uppi af ríkisfé, eins og t.d. Matís eða Nýsköpunarmiðstöð Íslands, er í yfirburðaaðstöðu til að hljóta styrki samkeppnissjóða. Stofnunin getur sýnt fram á tryggt mótframlag sem fjármagnað er af ríkissjóði og mikið mannval sérfræðinga sem einnig eru á launum hjá ríkissjóði. Við þetta þarf hinn almenni umsækjandi að keppa sem er oft á tíðum búinn að setja allt handbært fé sitt í verkefni og á undir högg að sækja með öflun sérfræðiaðstoðar. Það er því alls ekki rétt þegar segir í skýrslunni að þeir fiski sem róa, sumir fá aflann einfaldlega sendan beint heim til sín.

Þetta atriði snertir auðvitað aðstöðumuninn milli landshluta þar sem flestar stofnanir sem þessara forréttinda njóta eru á höfuðborgarsvæðinu en almennir frumkvöðlar eru dreifðir um landið. Frumkvöðlamiðstöðvar, þar sem hugvitsfólk getur komið saman og unnið að verkefnum sínum sameiginlega eða sér í lagi gegn hóflegu leigugjaldi, eru mikilvægur þáttur í frumkvöðlastuðningi sem stjórnvöld hafa því miður lítt hugað að.

Á Ásbrú á Suðurnesjum var frumkvöðlamiðstöðin Eldey. Þangað komu fjölmargir frumkvöðlar og unnu að verkefnum sínum og má þar nefna Valorku sem dæmi. Þróunarfélagið Kadeco, sem er í eigu ríkisins, fékk það verkefni að koma húsum á Ásbrú í almenn not og á síðasta ári var húsnæði Eldeyjar selt undan frumkvöðlum og þeir settir á götuna. Ekki dugðu fyrirheit stjórnvalda lengur en þetta. Leigan í Eldey var hófleg en eftir þetta þurftu þeir að leigja húsnæði (Forseti hringir.) sem var fjórum sinnum dýrara og mun óhentugra. Engin úrræði hafa komið í staðinn. Þetta dæmi, herra forseti, sýnir því miður (Forseti hringir.) áhugaleysi ríkisstjórnarinnar þegar kemur að málefnum nýsköpunar á landsbyggðinni.