150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

stuðningur við rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins.

[11:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Einföld spurning: Hvers vegna getur íslenska ríkið átt aðild að Þróunarbanka Asíu en ekki viljað búa til Þróunarbanka Íslands? Þetta er svolítið spes spurning og skemmtileg mótsögn í þessu því að eitt stærsta vandamál bæði sprotafyrirtækja, fyrirtækja í rannsóknum og þróun og jafnvel eldri framleiðslufyrirtækja í dag er að þau hafa ekki aðgang að fjármagni til þess að stækka og skapa eitthvað nýtt og gera betur og meira. Bankarnir eru nefnilega að draga saman seglin í útlánum til fyrirtækja almennt og þegar slík lán eru veitt er það gert með himinháum vöxtum. Við í fjárlaganefnd vorum á fundi hjá Seðlabankanum í gær þar sem sýnd var þróun útlána á undanförnum misserum og þar fara útlán hratt niður, sérstaklega til fyrirtækja. Innlendir fjárfestar fjárfesta ekki nema mjög varlega og í takmörkuðum mæli og erlendir fjárfestar fást varla til þess að líta við Íslandi, aðallega vegna ótta um óábyrgt stjórnkerfi og óstöðugan gjaldmiðil, sem samkvæmt verkefnum Seðlabanka hefur vissulega gengið ágætlega að undanförnu að glíma við en hættan er alltaf til staðar. Við þurfum meiri tíma til að sanna okkur.

Þó að þróunarsjóðir eins og Rannís og Tækniþróunarsjóður séu að gera ágæta hluti til að koma fyrirtækjum af stað eru sjóðir þeirra allt of litlir og hjálpa nær eingöngu á frumstigum verkefna en ekki þegar þau eru tilbúin til fjöldaframleiðslu eða markaðssetningar. Það er margt sem ætti að gera og ríkisstjórnin hefur sagst ætla að bregðast við þessu t.d. með Kríusjóðnum en hann kemur mögulegt ekki fyrr en eftir næstu kosningar og það er alveg óljóst hvernig fjármögnun hans verður háttað, úr hvaða fjármunum hann mun hafa að spila og hverjar reglurnar verða um fjárfestingar. Í stuttu máli er það bara óljóst loforð sem Sjálfstæðisflokkurinn þykist ætla að efna í næstu ríkisstjórn, en það kemur kannski í ljós í kosningabaráttunni.