150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

stuðningur við rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins.

[11:28]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir umræðuefnið hér sem er í sjálfu sér mikilvægt. Ég held að þegar við tölum um nýsköpun almennt, þegar við tölum um atvinnustefnu og þegar við tölum um byggðastefnu sé mjög brýnt að við skiljum nokkurn veginn að það er munur á þessum hlutum þó að þeir að sjálfsögðu styðji hver við annan. Nýsköpun er, eins og orðið gefur til kynna, það að gera eitthvað nýtt, alveg nýtt, eða gera eitthvað sem fyrir er með nýjum hætti. Það er annað að hefja atvinnurekstur um ágæta hugmynd sem er kannski ekkert í sjálfu sér stórkostlega merkileg en hún er mjög mikilvæg á því svæði eða hvar sem hún kemur fram.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að við ruglum ekki saman hugtökum og tilgangi. Það er svo margt sem er hægt að gera. Það að byggja upp öflugt atvinnulíf um allt land getur verið háð ýmsum þáttum. Þar þykir mér t.d. að við höfum alltaf lagt allt of mikla áherslu á það að halda að landsbyggðinni sjávarútvegi og landbúnaði, það er alfa og omega alls. Við þurfum auðvitað að búa þannig um hnútana að það fé sem er til ráðstöfunar sé til frjálsrar ráðstöfunar, til hvaða hugmynda sem er, en ekki binda það á klafa einhvers tiltekins því að með frjálsræðinu og frelsinu gerast hlutirnir. Ég held að það sé aðalatriði málsins að við búum þannig um hnúta.