150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

stuðningur við rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins.

[11:33]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Nýsköpun er lykilorðið en við sem þekkjum fjárlögin eins og handarbakið á okkur sjáum að sú hugsun hefur ekki náð alla leið inn til ráðherrans. Förum yfir fimm hrollvekjandi staðreyndir úr fjárlögunum:

1. Rannsóknasjóður fær beinlínis minni fjármuni í ár en í fyrra í glænýjum fjárlögum þessarar ríkisstjórnar og er lækkunin 20% á tveimur árum.

2. Innviðasjóður fær einnig lækkun á milli ára.

3. Markáætlun á sviði vísinda og tækni fær sömuleiðis lækkun á vakt þessa ráðherra á milli ára.

4. Tækniþróunarsjóður, sem er lykilsjóður, fær þá einnig minna í ár en í fyrra samkvæmt núgildandi fjárlögum og er lækkunin yfir 20% á tveimur árum. Það er risavaxin lækkun til lykilsjóðs á vettvangi nýsköpunar.

5. Nú er lækkunin til endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar á Íslandi um 30% milli 2019 og 2020. Þessi ríkisstjórn minnkar fjármuni til kvikmyndagerðar um 30% á milli áranna 2019 og 2020.

Herra forseti. Þetta eru allt mikilvægir sjóðir, úrræði á sviði nýsköpunar, sem fá ekki meira á milli ára heldur minna og það stendur skýrum stöfum í fylgiriti fjárlaga þessarar ríkisstjórnar. Nú liggur sérstaklega fyrir að það hallar á nýsköpun á landsbyggðinni. Hið opinbera gegnir afar mikilvægu hlutverki þegar kemur að því styrkja nýsköpun og þróun. Auknir fjármunir í nýsköpun og rannsóknasjóði búa beinlínis til peninga. Þeir búa til fjölbreyttara atvinnulíf og styrkja byggðirnar.(Forseti hringir.)

Herra forseti. Við þurfum ríkisstjórn sem skilur þetta og fer fram á veginn en ekki aftur á bak eins og þessi ríkisstjórn gerir.