150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

stuðningur við rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins.

[11:40]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Fjárfesting í þekkingu og nýsköpun er einhvers konar ruðningstæki í efnahagslífinu og um þetta er veruleg samstaða á Alþingi, það er engum blöðum um það að fletta. Nýsköpun er yfirleitt tekin í fjórum skrefum eða fösum; það er hugmyndavinnan, það er greiningarvinnan, það er þróunarvinnan og svo að lokum framleiðsla. Það er á þessum tveimur síðustu fösum eða stigum sem okkur gengur verr en ella að fóta okkur og tryggja fjármagn.

Landshlutasérþekking er nokkuð sem er til. Það er nándin við náttúruna sem er jú aðal auðlind okkar. Það er landbúnaðurinn, það eru sjávarnytjarnar, það eru grösin, grasnytjar, og það eru ýmiss konar jarðefni. Þessa þekkingu þurfum við að nota okkur betur en við höfum gert hingað til og leggja til þess fé og tíma.

Mig langar að nefna tvennt í því sambandi. Það er annars vegar nýr sjóður, einhvers konar gangsetningarsjóður sem ég vildi kalla svo. Það er þá hægt að líta á þá sjóði sem fyrir eru, Tækniþróunarsjóð og Rannsóknasjóð, sem seinni skref. Þessi sjóður samanstendur annars vegar af áhættufé til fyrirtækja sem eru að fara í nýsköpun, getur þá horfið ef þetta gengur ekki upp, en það er líka hægt að sjá fyrir sér að þetta verði hlutafé sem síðan gangi hægt og rólega til baka. Það er hagnaður ríkis sem er notaður í þennan sjóð. Það getur verið fé úr þjóðlendum, rekstri þar, það getur verið úr sölu bankahluta, það getur verið frá hagnaði orkufyrirtækja. Í kjölfarið þarf að koma þriggja til fimm ára landshlutaátak þar sem eru haldnir kynningarfundir þar sem er farið ofan í mál með sérfræðingum í nýsköpun, sérfræðingum í vísindum og fjármagn í þetta tryggt í gegnum þennan tiltekna sjóð. Þeir eru margir veit ég, herra forseti, en stundum þarf að bæta við.