150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

stuðningur við rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins.

[11:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Í þessum geira eru mjög mörg vandamál en líka fullt af lausnum. Það eru kannski helst skortur á lausnum sem hefur verið vandamálið en sókn ríkisstjórnarinnar og stefna ríkisstjórnarinnar hefur á þessu kjörtímabili verið nýsköpunarstyrkir til stærstu aðilanna, ekki t.d. uppbygging á rannsóknasjóðum menntamála eða byggðasjónarmið eða eitthvað þess háttar.

Hæstv. ráðherra talaði um stafrænar smiðjur, FabLab. Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir sagði einmitt að FabLab væri góð byrjun í þessum aðstæðum. Ég get hjartanlega tekið undir það en þegar ég fór og heimsótti stafrænu smiðjurnar á Akureyri í liðinni viku og í Breiðholti þá höfðu menn þar áhyggjur af fjármögnun af því að það kemur frá mismunandi stöðum. Það voru áhyggjur um að fjármagn væri að hverfa. Það var engin vísbending um að farið væri eftir þeirri þingsályktunartillögu sem allir á þingi samþykktu. Ég bíð rosalega spenntur eftir fjármálaáætluninni sem verður birt núna því að hægt er að rökstyðja að þar sé fyrsta tækifærið til að bregðast við þeirri þingsályktun. Ef það verða orðin tóm, ef það verða engar aðgerðir í fjármálaáætlun gagnvart þessari þingsályktun sem þingið samþykkti og bætti í þá sjáum við einfaldlega að ríkisstjórnin ætlar ekki að bregðast við því sem þingið er að biðja um.

Það hefur verið talað um ýmislegt. Hv. þm. Karl Gauti Hjaltason talaði um nýsköpun í landbúnaði sem er líka mjög áhugavert atriði en það er rosaleg nýsköpun víðs vegar um landið. Það er wasabi-rækt, það er verið að tala um lárperurækt á Vestfjörðum, það er verið að rækta iðnaðarhamp á Austfjörðum, það er verið að rækta bygg til viskígerðar o.fl. En allir þessir staðir mæta ákveðnum hindrunum. Þessir litlu aðilar sem eru að reyna að komast af stað og gera eitthvað spennandi lenda í stoppi, þá vantar fjármagn, reglugerðir þvælast fyrir og ýmislegt svoleiðis.