150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

stuðningur við rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins.

[11:47]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir góða umræðu hér í dag og vonandi sjáum við þann góða vilja sem kom fram í umræðunni verða að raunveruleika. Ég tek sérstaklega undir það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra og hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur varðandi mikilvægi aðgengis að menntun og rannsóknarstofnunum og auðvitað FabLöbbunum sem ég hlakka til að sjá eflast og verður að tryggja fjármögnun á.

Samkeppnisstaða landshlutanna er hins vegar því miður, eins og kom glöggt fram í umræðunni, skökk á mörgum sviðum. Sem dæmi má nefna aðstöðumun þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins þegar kemur að aðgengi að sérfræðingum. Þau þurfa til að mynda sjálf að standa straum af ferðakostnaði. Ef þú ert að vinna t.d. í matvælaiðnaði og vilt fá sérfræðing frá Matís með þér í verkefnið þarftu að borga undir hann út á land. Er það eðlileg samkeppnisstaða? Við þurfum sömuleiðis, eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson kom svo vel inn á, að efla okkar góðu sjóði sem stuðla að nýsköpun og rannsóknastarfi um landið. Þar er ekki síst mikilvægt að efla uppbyggingarsjóði landshlutanna og ég vona að hæstv. ráðherra vinni að því með okkur að efla þessa sjóði, a.m.k. stendur ekki á okkur þingmönnum Samfylkingarinnar. Það er svo margt sem mætti gera betur og vonandi verður þessi umræða til að hvetja þingheim til að stuðla betur að því.

Herra forseti. Góðar hugmyndir fæðast nefnilega hvar sem fólk býr en aðgengi að stuðningi, fjármagni og menntun eru lykilatriði þegar kemur að því að færa þessar góðu hugmynd yfir í raunveruleikann. Við megum ekki klikka á því að styðja við góðar hugmyndir einfaldlega af því að þær urðu ekki til á höfuðborgarsvæðinu. Við þurfum að gera betur og ég vona að við sjáum vilja til þess í komandi fjármálaáætlun og sömuleiðis í aðgerðum hæstv. ráðherra.