150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

stuðningur við rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins.

[11:49]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir góða og gagnlega umræðu hérna í dag. Úttekt Daða Más Kristóferssonar, sem vísað var til, var unnin að beiðni Vísinda- og tækniráðs en á þeim vettvangi hefur einmitt verið lífleg umræða um mikilvægi þess að styðja við rannsóknir og nýsköpun um land allt.

Mig langar að koma að nokkrum atriðum. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson nefndi að hér væri ekkert erlent fjármagn að koma inn í nýsköpunarumhverfið. Það er alls ekki rétt. Erlendir fjárfestar komu t.d. með meira en 15 milljónir dollara til Íslands í fyrra, m.a. til Ísafjarðar, hvort sem það er Kerecis, Oculis, SidekickHealth, GRID, Lava cheese og fleiri og fleiri fyrirtæki. Það er því alger óþarfi að tala niður þann árangur sem þetta umhverfi er að ná og skiptir sköpum.

En við viljum gera betur og Kría er auðvitað verkefnið og sjóðurinn er stóra aðgerðin í þeim efnum. Hún er hönnuð til að bæta fjármögnunarumhverfi á Íslandi. Sprotafyrirtæki þurfa einfaldlega aðra tegund fjármögnunar en banka og þess vegna erum við að koma á fót Kríu. Einu sinni vorum við með bankastarfsemi sem hjálpaði sjávarútveginum að fjárfesta í togurum og öðru til að byggja upp þá atvinnugrein og nú erum við að gera það sem gera þarf til að efla þetta umhverfi. Það er alger þvæla að segja að Kría sé einhvers konar loðið loforð sem komi einhvern tímann seinna og sé annarra að standa við. Við erum að smíða frumvarp. Við gerum ráð fyrir þessu í fjármálaáætlun. Þetta er að verða að veruleika og þetta mun skipta sköpum fyrir nýsköpunarumhverfið á Íslandi. Ef vel tekst til trúi ég því að þetta muni færa okkur upp um ekki bara eina tröppu heldur nokkrar í þessu umhverfi. Nýsköpun er einfaldlega grundvallarstoð verðmætasköpunar á Íslandi, á landinu öllu, og landsbyggðin öll þarf að vera með í því verkefni. Nýsköpun er ekki varaaflsstöð þegar annað brestur. Hún er grundvallarstoð verðmætasköpunar á Íslandi. Hún er heldur ekki lúxus til að hafa með til hliðar til að líta vel út (Forseti hringir.) heldur er hún það sem mun hjálpa okkur að leysa allar þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir, hvort sem það eru efnahagslegar áskoranir, lýðfræðileg þróun, loftslagsmál eða hvaðeina annað. (Forseti hringir.)

Ég hlakka til að eiga áframhaldandi umræðu um nýsköpunarmál og þakka kærlega fyrir góða umræðu.