150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

leiga skráningarskyldra ökutækja.

386. mál
[12:18]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Málið er í sjálfu sér ekki slæmt en það er bara minnsta hugsanlega mögulega skref sem hefði verið hægt að taka í ljósi Procar-málsins, þ.e. þegar menn svindla á ökutækjamælum og selja þar af leiðandi eign sem nær þá hærra verði annars vegar og hins vegar selja eignir sem eru óöruggari í akstri. Menn vita ekki hvernig þeir eiga að sinna aðbúnaðinum með ökutækið vegna þess að upplýsingar um kílómetrastöðu eru rangar.

Um það snýst þetta mál þannig að ég mun samþykkja það eins og það er hérna en þetta er minnsta hugsanlega skref sem hefði verið hægt að taka. Það hefði verið hægt að afmarka sig ekki við bílaleigur. Það hefði verið hægt að láta málið ná yfir söluaðila. Það hefði verið hægt að hafa sektir hærri. Í dag skiptir engu máli hversu oft menn brjóta af sér, þótt það væri 148 sinnum fylgir því bara einu sinni 2 millj. kr. sekt. Það hefði verið hægt að gera miklu meira og allir sem komu fyrir nefndina og ræddu um þann þátt málsins eru sammála um að þessi viðurlög séu ekki letjandi (Forseti hringir.) fyrir þá sem vilja svindla. Menn sem svindla í eitt skipti á kílómetramæli og selja bílinn eru komnir með þessa 2 millj. kr. sektargreiðslu. (Forseti hringir.) Í 147 skipti í viðbót eru menn að græða. Þetta er engan veginn nóg.

Ég mun samþykkja frávísunartillöguna frá Miðflokknum þannig að ráðherra geti unnið málið betur en ef hún verður felld, sem hún verður, samþykki ég samt málið.

(Forseti (SJS): Það má heldur ekki svindla á tímanum.)