150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

leiga skráningarskyldra ökutækja.

386. mál
[12:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Um þetta mál er það að segja að hér er vissulega um að ræða ákveðin viðbrögð við máli sem upp hefur komið og þau fela í sér breytingu á stjórnsýslureglum hvað það varðar. Menn geta verið þeirrar skoðunar að hægt sé að ganga lengra en ég held að það sé allvíðtæk samstaða um að engu að síður sé rétt að stíga það skref sem hér er gert. Ég fagna því og þó að einhverjir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu hugsanlega viljað ganga lengra virðast þeir flestir ætla að styðja málið að svo stöddu.

Ég verð hins vegar að biðja menn að hafa í huga þegar mál af þessu tagi eru til umfjöllunar að almennt er það svo að ef menn beita blekkingum eða svikum í þeim tilgangi að afla sér fjárhagslegs ávinnings getur verið um að ræða brot á hegningarlögum. Það getur verið um að ræða fjársvik þannig að þau stjórnsýsluviðurlög sem hér er verið að hugsa um eru ekki eina úrræðið sem getur (Forseti hringir.) þurft að grípa til vegna mála af því tagi.