150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

leiga skráningarskyldra ökutækja.

386. mál
[12:23]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég var framsögumaður á þessu máli í fjarveru hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar. Vissulega komu ýmsar athugasemdir við málið í atvinnuveganefnd en þær lutu fyrst og fremst að því að aðrir aðilar ætti jafnframt að falla undir þessi lög. Það kom líka fram að það þyrfti að koma fram með lög sem sneru að aðilum eins og bílasölum og öðrum slíkum sem hugsanlega gæti verið einhver brotavilji hjá til að breyta ökumælum. Ég tel því að þetta mál gangi vel í þá átt að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur, eins og gerðist varðandi bílaleigurnar, að það sé verið að fikta í mælum. Alltaf má deila um upphæðir stjórnvaldssektanna en þær mæta vel því sem þarna er reynt að ná utan um. Eins og hv. þingmaður nefndi áðan ná líka hegningarlög til þessara aðila sem eru að framkvæma slík brot svo að ég tel að þessi lög hér nái utan um það sem þeim er ætlað að gera (Forseti hringir.) og að þá þurfi að bregðast við með annarri lagasetningu ef við ætlum að ná til fleiri aðila.