150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

leiga skráningarskyldra ökutækja.

386. mál
[12:25]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Hér horfum við upp á það hvernig Alþingi þykir eðlilegt að bregðast við einbeittum brotavilja, fjársvikum og svindli. Það tekur lítil skref eða ekki skref. Erum við að tala um breytingar á stjórnsýsluumsýslan eða erum við að tala um almenn hegningarlög? Það er ekki það sem málið snýst um hér. Það snýst frekar um það hvaða verkfæri löggjafinn hefur til að senda skýr skilaboð út í samfélagið til þeirra sem með einbeittum brotavilja hafa hagað sér eins og umrædd bílaleiga í þessu tilviki. Við eigum fleiri verkfæri í töskunni. Ég hefði hiklaust notað það verkfæri að svipta viðkomandi rekstrarleyfi um ákveðinn tíma. Ég hefði hiklaust sent skýr skilaboð um að það sé ekki nóg að greiða smávegis sekt og geta svo haldið uppteknum hætti. Þú skalt hugsa þig um tvisvar, ágæti bílasali, áður en þú framkvæmir á einbeittan hátt þau brot sem þú svo augljóslega gerir.

Ég styð tillögu Miðflokksins.