150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

stimpilgjald.

569. mál
[12:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013, með síðari breytingum. Í frumvarpinu eru lagðar ...

(Forseti (SJS): Forseta leiðist sá ósiður hv. þingmanna að rjúka með skvaldri og látum út úr þingsalnum þegar ræðumaður hefur hafið mál sitt. Hann fer vinsamlegast fram á að menn sitji í sætum sínum eða yfirgefi salinn hljóðlega.)

Virðulegur forseti. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um stimpilgjald varðandi gjaldstofn stimpilgjaldsins og skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi. Markmið frumvarpsins er að stuðla að skýrari og einfaldari skattframkvæmd hvað varðar innheimtu stimpilgjalda.

Í fyrsta lagi er lagt til að kveðið verði skýrar á um það þegar gjaldstofn til stimpilgjalds af skjölum er varða eignayfirfærslu fasteigna, þar sem skráð fasteignamatsverð endurspeglar ekki byggingarstig eignar eins og það verður við afhendingu, skuli miða gjaldstofninn við áætlað matsverð sem tekur mið af byggingarstigi viðkomandi eignar við afhendingu. Þá er jafnframt kveðið á um viðmið sem sýslumaður skal styðjast við þegar hann kannar hvort gjaldskyld fjárhæð sé rétt tilgreind í gjaldskyldu skjali og jafnframt þegar hann tekur ákvörðun um slíka fjárhæð þegar hún endurspeglar ekki matsverð í samræmi við byggingarstig eignar við afhendingu. Tillögu þessa má rekja til ábendingar umboðsmanns Alþingis þar sem bent var á að þessi atriði laganna gætu verið óskýr í núverandi mynd.

Í öðru lagi er lögð til breyting á ákvæði laganna varðandi skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi vegna kaupa á fyrstu íbúð. Skilyrðið kveður á um að kaupandi íbúðarhúsnæðis megi ekki áður hafa verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði. Lagt er til að framkvæmd skilyrðisins verði einfölduð með því að kveðið verði með skýrari hætti á um það að skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi sé að kaupandi íbúðarhúsnæðis hafi ekki áður verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði, hvort sem er með kaupum, arftöku, gjafagerningi eða eignayfirfærslu með hvers kyns öðrum hætti.

Talið er að með þessari breytingu sé verið að hnykkja á vilja löggjafans þó að komið hafi upp ákveðin vandkvæði við að höggva á hnútinn um þetta atriði í framkvæmd, nefnilega að afslátturinn ætti að ná til þeirra sem eru að eignast íbúð í fyrsta sinn. Það er sannarlega þröskuldur sem við gerum okkur grein fyrir að er býsna hár fyrir landsmenn og sá tilgangur laganna skolast dálítið til ef menn geta hafa verið þinglýstir eigendur að íbúðarhúsnæði og hafi orðið það með gjafagerningi, svo dæmi sé tekið, en síðar keypt sér eign í fyrsta skipti og þannig notið góðs af lagaákvæðinu. Ég vona að þetta sé nægilega skýrt.

Í þriðja lagi er verið að fella brott ákvæði laganna varðandi skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi vegna kaupa á fyrstu íbúð. Skilyrðið kveður á um að kaupandi íbúðarhúsnæðis þurfi að verða þinglýstur eigandi að a.m.k. helmingi þeirrar eignar sem keypt er. Hérna vil ég nefna að til ráðuneytisins hafa borist dæmi um að ungt fólk leggi í sín fyrstu íbúðarkaup með stuðningi foreldra þannig að foreldrar eignast t.d. 10% af eigninni og síðan sambúðaraðilar 45% hvor og þá er komin upp sú staða að lögin útiloka að veittur sé afsláttur af stimpilgjaldinu, jafnvel þótt báðir þessir ungu einstaklingar í því tilviki sem ég er að hugsa um séu að kaupa eign í fyrsta sinn. Samanlagt eiga þau 90% en lögin eru dálítið of stíf, má segja, til að hleypa slíkum tilfellum í gegn. Ég tel að það sé vilji til þess á þinginu að koma til móts við þessi tilvik með breytingunni vegna þess að með brottfalli skilyrðisins munu fyrstu kaupendur eiga fjölbreyttari valmöguleika á því hvernig eignarhlutfalli þeirra á hinu keypta íbúðarhúsnæði er háttað.

Við gerum ráð fyrir því að lagabreytingar frumvarpsins hafi mjög óveruleg áhrif á afkomu ríkissjóðs verði frumvarpið óbreytt að lögum og ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari.